Húnavaka - 01.05.2009, Page 141
H Ú N A V A K A 139
setjari man þar mest eftir Sverri Kristófers og Elsu, með börnin Kristófer,
Hildi og Sigurgeir áður en þau fluttu í nr. 27 við Húnabrautina.
Í húsinu voru Sissa og Binni Blöndal sem fluttu síðan á nr. 3 við Húnabraut.
Þá Þórður og Sveina í Sauðanesi, á meðan þau gerðu hlé á bústörfum. Þá
vann hann á kaupfélagsskrifstofunni en börnin sóttu skólann og áttu gott með
að læra, sérstaklega Páll, síðar fyrirmyndarkúabóndi í Sauðanesi. Guðmundur
og Ingibjörg Karls frá Neðri-Lækjardal bjuggu síðar í húsinu með síma-
tvíburana, Ellert og Jakob.
Á auðu svæði sem afmarkaðist af Sólvöllum, Mjólkurstöð, Halldórshúsi og
kaupfélagshúsinu var timburlager kaupfélagsins. Það voru uppgripatímar fyrir
unga drengi og eldri verkamenn þegar timburflutningaskip komu. Þá var
unnið við að raða og stafla timbri eftir lengdum og þykktum. Þannig varð til
mikil þekking á tommum og fetum.
Kaupfélagshúsið var gríðarstórt hús. Þar var búðin og þar voru skrifstofur
á báðum hæðum. Í búðinni fékkst allt sem heimili í bæ og sveit þurftu á að
halda og væri eitthvað sem ekki fékkst, þá var það af því að heimilin þurftu
ekki á slíku að halda. Búðarborðið var langt og mikið og var u-laga, með
mörgum skúffum og glerplötum á fleiri en einum stað, þar undir voru
dýrgripirnir. Hægra megin við innganginn var bekkur fyrir viðskiptavini til að
hvíla lúin bein meðan drukkið var úr eins og einni maltflösku eða svo.
Skrásetjari man ekki til þess að karlmaður hafi verið við afgreiðslustörf en
fjöldinn allur af stúlkum, eins og Sída og Sigga Zóf, Lilla á Eiríksstöðum og
Lilla Frigga, Silla á Njálsstöðum, Þórunn Péturs og Stína Gústa, Hrafnhildur
Valgeirs, Magga Svenna og Imma í Skuld. Ekki er þetta fullnaðarupptalning
en er þó upp talinn mikill blómi húnvetnskra stúlkna.
Í kjallaranum var vörulagerinn en skrásetjari telur að hann muni einnig eftir
Páll Svavarsson, síðar mjólkurbússtjóri, við strokkinn með smjörklípu í skeið.
Ljósm.: Unnar.