Húnavaka - 01.05.2009, Page 146
H Ú N A V A K A 144
GUÐRÚN ANGANTÝSDÓTTIR, Skagaströnd:
Klettavík
Þetta var ósköp venjulegur dagur að hausti. Ég og maðurinn minn vorum ekki
sammála um eitthvað sem við vorum að ræða. Í dag man ég ekki hvert
þrætueplið var. En allt í einu vorum við bæði orðin reið.
– Ég ætla að fara út að ganga, sagði ég.
Ég tók góða utanyfirflík og fór í hana með hraði og setti góða skó á fætur
mér. Ég gekk svo sem leið lá eftir aðalgötu bæjarins okkar. Leiðin liggur í
suðurátt, það var þónokkur umferð, ýmist bílar að koma til bæjarins eða að
fara úr bænum. Allt í einu var ég komin að ánni og er tvíbreið brú yfir hana,
hin veglegasta, þó að áin sé ekki mjög mikil. Yfir brúna fór ég og áfram,
vegurinn liggur svo í austurátt. En í suðurátt er smá göngugata, ég hugsaði
með mér. Ég ætla að fara þennan götuslóða. Hér hef ég aldrei farið!
Ég gekk áfram þó nokkra stund og allt í einu var ég komin að háum hvítum
klettum og sjór þar fyrir neðan en á milli klettanna og sjávarins var fallegur
hvítur sandur. Ég gekk ofan í fjöruna og tók upp handfylli mína af þessum
hvíta glitrandi sandi og lét hann renna hægt úr hendi mér aftur niður í fjöruna.
Þetta var óvenjulegur sandur, ég hafði aldrei séð svona sand fyrr.
Síðan fór ég upp úr fjörunni, upp með hvítum klettunum. Þá sá ég þrjá
sumarbústaði þar nálægt. Einn bústaður var stutt frá en hinir tveir voru lengra
frá mér. Það rauk upp úr reykháfi á bústaðnum sem var næstur. Ég sá að það
voru þvottasnúrur við bústaðinn. Og á snúrunum voru bara viskustykki, rauð,
græn og bláköflótt, ekkert annað.
En skrýtið, hugsaði ég og brosti, sem ég hafði ekki gert á þessari gönguför
minni fyrr. Ég horfði þó nokkra stund á þetta. Svo sá ég klettaröð svona 500
metra frá bústöðunum. Ég hélt áfram ferðinni, kom að klettaborgum og gekk
meðfram þeim fyrst til að skoða landslagið. Á milli sumra klettanna voru mjóir
stígar en á einum stað var breið gata milli klettanna, ekki malbikuð. Líklega
fyrir bíla, hugsaði ég um leið og ég gekk eftir götunni.
Þá blasti við sjónum mínum bær. Falleg hús sá ég tilsýndar og áfram gekk
ég. Ég heyrði hlátur í börnum hjá einu húsinu. Ég gekk þangað og kom að
fallegri girðingu, fyrir innan voru þrjú börn í boltaleik, ýmislegt dót var í
garðinum, dúkkuvagn, bílar og fleira dót. Ég heilsaði börnunum og þau hættu
að leika sér og komu að hliðinu til mín.
Hvað heitir þessi bær, spurði ég.
Klettavík, svöruðu þau einum rómi. Þetta voru tveir drengir og ein stúlka.
Heyrðu frú, sagði stúlkan, hefur þú aldrei komið hingað fyrr?