Húnavaka - 01.05.2009, Side 147
H Ú N A V A K A 145
Nei, svaraði ég.
Hvar áttu heima, spurði hún. Ég sagði henni það.
Nú, hvar er sá bær, spurðu þau.
Hér stutt frá, sagði ég.
Þau hristu höfuðin.
– Við höfum aldrei heyrt um þann bæ fyrr.
Ég hef heldur ekki heyrt um ykkar bæ, svaraði ég.
Við skulum sýna þér okkar bæ, sögðu börnin.
Annar drengurinn fór inn í húsið, líklega að segja móður eða föður sínum
hvað þau ætla að gera, hugsaði ég. Við gengum nú meðfram fallegum húsum
og vel snyrtum görðum þó að haust væri komið. Mörg húsin voru á einni hæð
en nokkur tveggja hæða hús líka. Þegar við vorum búin að ganga þó nokkuð
um bæinn bentu börnin mér á stór hús.
Þetta eru verslanirnar okkar, apótekið, bakaríið og fleiri búðir.
Það voru ekki margir bílar á ferð okkar. En víða voru bílar við húsin. Við
komum í verslunarkjarnann. Ég var orðin svöng. Við fórum í bakaríið, ég og
börnin settumst við eitt borðið. Ég fékk mér te, börnin vildu gosdrykki, svo
völdum við okkur brauð með. Við borðuðum brauðið með bestu lyst. Svo
keypti ég tvö stykki af sætu brauði til að hafa með heim.
Við fórum svo í minjagripabúð, ég þarf að kaupa nokkra minjagripi,
hugsaði ég, því ég er með minjagripasöfnunaráráttu. Maðurinn minn hefur
líka oft hlegið að mér fyrir þessa áráttu. Börnin fylgdu mér við hvert fótmál.
Ég skoðaði margt í búðinni, að lokum keypti ég marga minjagripi, fingurbjargir,
spilastokk, bókamerki, lyklakippur og skeiðar. Allir minjagripirnir voru merktir
Klettavík og hvítir klettar á þeim og fleiri myndir af landslaginu þar í kring.
Því næst fórum við í fatabúðir. Ég skoðaði fötin og falleg voru þau, ég keypti
mér rauðan bol merktum Klettavík, hvítir klettar voru á bolnum og rósir líka.
Þá var ekki mikið eftir af peningum í veskinu mínu. Svo gengum við um
bæinn, börnin voru orðin bestu vinir mínir. Stúlkan hét Karen, drengirnir
Bjarki og Páll. Tíminn flaug áfram, það var farið að kólna í veðri.
Nú þarf ég að fara að koma mér heim, sagði ég við börnin.
Þú þarft ekki að fara veginn sem þú komst eftir, sögðu þau.
Nú hvaða leið fer ég þá, spurði ég.
Þau sýndu mér þann veg. Ég kvaddi þessi góðu börn. Karen litla lagði
hendur um háls mér og kyssti mig marga kossa.
Mér þykir vænt um þig, komdu aftur í bæinn okkar, sagði hún. Ég lofaði
því.
Nú gekk ég í norðvesturátt. Eins og áður sagði var orðið kalt úti. Ég var
fegin að ég var í hlýrri úlpu. Já, alveg rétt, maðurinn minn gaf mér hana
síðastliðin jól. Nú fann ég að öll reiði var horfin úr huga mínum. Ég hlakkaði
til að koma heim til hans. Loksins kom ég að veginum sem kom saman við
veginn sem lá inn í bæinn okkar. Yfir brúna fór ég. Nú voru margir bílar á
ferðinni. Svo kom ég heim og þegar ég opnaði útidyrnar kom maðurinn minn
til mín og tók utan um mig. Ég hallaði mér að brjósti hans, ó, hvað ég elskaði
þennan mann. Hjartað í brjósti mér sló hraðar en vant var.