Húnavaka - 01.05.2009, Page 148
H Ú N A V A K A 146
Hvar hefurðu verið, elskan mín, sagði hann. Ég var orðinn svo hræddur um
þig, það eru margir tímar síðan þú fórst út.
Ég fór úr úlpunni og gönguskónum og sagði honum ferðasögu mína.
En elskan mín, það er enginn bær hér stutt frá sem heitir Klettavík, sagði
hann. Ég sýndi honum brauðið og minjagripina sem ég hafði keypt.
Ég skil þetta ekki, sagði hann svo, undrandi á svipinn.
Það eru nokkur ár síðan þessi atburður gerðist. Ég hef oft farið þennan
götuslóða síðan. Það eru engir klettar neins staðar, engin sumarhús, þaðan af
síður bær. Fallegur bær sem heitir Klettavík, nei, þar eru bara móar og melar.
En hvernig stendur þá á þessu? Hvert fór ég?
En ég á minjagripina og handleik þá oft. Ég sakna barnanna, sérstaklega
litlu stúlkunnar.
LÁRUS ÞÓRÐARSON frá Grund:
Lausavísur
Ég var á Reykjaskóla í Hrútafirði á sínum tíma, þá gerði ég þessa vísu:
Horfi ég um Hrútafjörð,
hvergi sér í græna jörð,
víða skín í svartan svörð,
sviðinn Vítis hita,
gráa mela og móabörð,
mun hér ævin flestum hörð.
Enda er sveitin illa gjörð
eins og flestir vita.
Mér þótti þetta góð vísa hjá mér og í asnaskap mínum lét ég hana strax heyrast.
Góðir og gegnir Hrútfirðingar brugðust hins vegar þannig við að ég varð hið
bráðasta að gera bragarbót, sem varð svona:
Horfi ég um Hrútafjörð,
höldar ganga þar um jörð.
Sólin gyllir gróinn svörð,
gefur vorsins hita.
Víðar grundir, gróin börð
geyma bóndans sauðahjörð.
Sveitin er af sóma gjörð
svo sem allir vita.
❄❄❄