Húnavaka - 01.05.2009, Page 166
H Ú N A V A K A 164
Leifur stundaði ýmis störf með búskapnum og var mjög virkur í félags-
málum og nefndarstörfum. Þegar síminn kom í sveitirnar var sett upp símstöð
í Hnausum og tók Leifur við henni. Þau hjón voru samrýnd í sínum búskap og
verkefnin óþrjótandi. Síðustu árin í Hnausum ráku þau ferða þjónustu.
Margir heimsóttu Hnausa, ferðafólk og gestir, fyrir utan heimilisfólkið og
sumardvalarbörn, þannig að annríki einkenndi heimilið og marga vini
eignuðust þau Leifur og Elna sem héldu tryggð við þau í gegnum tíðina.
Leifur naut trausts sveitunga sinna og var um langt árabil gangnaforingi
þeirra við haustsmölun Grímstunguheiðar. Hann var félagslyndur og með
glaðlegt viðmót, var söngvinn og söng í kirkjukór Þingeyrakirkju frá því um
fermingu allt til þess að hann flutti suður.
Hann andaðist á Landspítalanum við Hringbraut í Reykjavík. Útför hans
var gerð frá Þingeyrakirkju þann 29. febrúar.
Sr. Sveinbjörn Einarsson.
Sigurður Agnar Sigvaldason
frá Króksseli
Fæddur 13. september 1913 – Dáinn 8. mars 2008
Sigurður Agnar Sigvaldason fæddist í Réttarholti á Skagaströnd. Foreldrar
hans voru Sigvaldi Björnsson og Guðrún Sveinsdóttir. Sigurður var yngstur af
sex systkinum, hin voru Sveinbjörn, Ingimar, Sigurjón, Árni og Ingibjörg.
Árið 1916 var örlagaríkt þeim systkinum því að þá dó móðir þeirra úr
lungnabólgu en þá var Sigurður aðeins þriggja ára. Eins og oft tíðkaðist var
fjölskyldan leyst upp og systkinahópurinn tvístraðist.
Sigurði var fyrst komið fyrir á Blönduósi, síðan
í Hvammkoti á Skaga en árið 1930 fluttist hann
til Sveinbjörns, elsta bróður síns, sem hafði tekið
við búrekstri í Króki. Dvaldist hann að mestu á
heimili Sveinbjörns og Svanlaugar Halldórsdóttur,
konu hans, eftir það. Þau fluttu árið 1945 að
Hólma og síðar að Króksseli. Þar dvaldi Sigurður
þangað til á 9. áratugnum þegar heilsu hans fór
verulega að hraka. Fluttist hann þá á Héraðshælið
á Blönduósi til þess að hann gæti fengið
nauðsynlega aðhlynningu.
Sigurður hafði marga góða kosti. Hann var
glaðlyndur og félagslyndur og fagnaði gestum
sem komu í heimsókn af einlægri gleði sem yljaði
án efa mörgum um hjartaræturnar. Hann var barngóður og gat spilað
lönguvitleysu við börnin tímunum saman. Svo gat hann setið og dundað sér
með teikniblokk og liti því hann var góður teiknari. Og þó að bóklegur
lærdómur væri honum erfiður gat hann samt sem áður lært sálma og vers.