Húnavaka - 01.05.2009, Blaðsíða 167
H Ú N A V A K A 165
Sigurður hafði yndi af þegar farið var til kirkju. Í Hofskirkju sat hann oft,
hlustaði á orð prestsins og tók hressilega undir í söngnum því að þar sem var
sungið þótti honum gaman að vera. Það gat verið erfitt að skilja Sigurð þegar
hann talaði en hann hafði fallega söngrödd og einnig hafði hann tóneyra.
Með góðri tilsögn gat Sigurður sinnt sveitaverkum, t.d. að rifja hey og
annað og hann vildi gjarnan hjálpa til og koma að gagni ef hægt var. Hann
var snyrtimenni og hafði ákaflega gaman af því að vera fínn, afbragðsmaður
og góð sál.
Sigurður lést á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi. Útför hans var gerð frá
Hofskirkju 15. mars.
Sr. Fjölnir Ásbjörnsson.
Ingibjörg Ebba Jósafatsdóttir,
Blönduósi
Fædd 6. desember1919 – Dáin 20. mars 2008
Ebba var fædd að Efra-Vatnshorni í Vestur-Húnavatnssýslu. Foreldrar hennar
voru Guðrún Ebenezerdóttir og Jósafat Hansson og var Ebba elsta barn
þeirra. Systkini Ebbu eru í þessari röð: Friðbjörn, hann er látinn, Sesselja, hún
er látin, Grímur, hann býr í Reykjavík, Hannes er látin, Náttfríður, býr á
Hvammstanga, Ragnhildur lést á fermingaraldri, Jósafat er yngstur og býr
hann á Hvammstanga.
Ebba var ellefu ára þegar hún missti föður sinn, eftir það fór hún að
Þóreyjarnúpi í Vestur-Húnavatnssýslu en réði sig
síðan, er hún hafði aldur til, í vist á mannmargt
heimili á Akureyri þar sem hún var um árabil.
Eftir það flutti hún aftur til Hvammstanga.
Þar lágu saman leiðir hennar og Haraldar Jóns-
sonar, þau giftu sig 18. ágúst 1948. Frá
Hvammstanga fluttu þau á Borðeyri þegar Har-
aldur réði sig til vinnu á Póst- og símstöðina þar.
Á Borðeyri bjuggu þau Ebba og Haraldur þar til
Póstur og sími flutti starfsemi sína að Brú í
Hrútafirði. Þar bjuggu þau og störfuðu til ársins
1957. Þá fluttu þau til Blönduóss en þar tók hann
við starfi stöðvarstjóra Pósts og síma og unnu þau
bæði fyrir það fyrirtæki til starfsloka. Eftir það
fluttu þau í eigið hús að Brekkubyggð 16 á Blönduósi.
Heimili Ebbu og Haraldar einkenndist af gesta komum, því þau voru góð
og gestrisin. Sameiginlegt áhugamál þeirra var skógrækt. Haraldur var
formaður Skógræktarfélags Austur-Húnvetninga og gegndi því starfi til
dauðadags, árið 1992. Skógræktinni að Gunnfríðarstöðum unnu þau hjón
mikið og gott starf. Ebba var einnig mjög áhugasöm um hvers konar garðrækt