Húnavaka - 01.05.2009, Page 171
H Ú N A V A K A 169
traustur vinur, leit til með vinum sínum og studdi þá ef þeir lentu í erfiðleikum.
Hann eignaðist enda sanna vini á lífsleiðinni, suma strax í bernsku.
Aldrei talaði Björn illa um annað fólk en lét alla njóta sannmælis. Hann var
glaðsinna og fjörugur og sjaldan lognmolla í kringum hann. Hann átti það til
að vera eilítið stríðinn ef svo bar undir en allt var það í góðu og meiddi engan.
Rökfastur var hann og hafði gaman af rökræðum
um marga hluti. Hann var vel lesinn og hafði
mesta ánægju af því að lesa um horfna tíma,
sagnfræði og sögur af fólki á fyrri tímum. Hann
sagði vel frá, var með afbrigðum minnugur og
þótti góður sögumaður og kippti raunar í kynið í
þeim efnum þar sem hann var ættaður úr hinni
fjörugu Látravík í V.-Barðastrandarsýslu.
Tvo syni eignaðist Björn á lífsleiðinni. Með fyrri
sambýliskonu sinni, Unni Ásu Jónsdóttur, eignaðist
hann soninn Ásgeir Má þann 2. mars 1981,
sambýliskona hans er Kristjana Elísabet
Sigurðardóttir. Upp úr sambandi Unnar Ásu og
Björns slitnaði eftir fimm ára sambúð. Með Herdísi
Herbertsdóttur eignaðist hann svo Eyþór sem fæddur er 16. ágúst 1988.
Björn hugsaði oft heim til Patreksfjarðar, fór þangað oftast nær í fríum
sínum og dvaldi þá hjá móður sinni og öðrum ættingjum og vinum. Hörmulegt
andlát hans bar brátt að og var öllum sem til þekktu mikil harmafregn. Útför
hans var gerð frá Patreksfjarðarkirkju 26. apríl 2008.
Sr. Leifur Ragnar Jónsson, sóknarprestur Patreksfirði.
Einar Adolf Evensen,
Blönduósi
Fæddur 13. desember 1926 – Dáinn 18. apríl 2008
Einar fæddist í húsi sem kallað var Langiskúr á Blönduósi. Móðir hans var
Ingibjörg Jóhanna Einarsdóttir, faðir hans var Gustaf Adolf Evensen Einn
bróður á Einar, hann er Erling Evensen sem búsettur er í Noregi.
Einar var alinn upp frá fæðingu af móðursystur sinni, Þorvildi og ömmu,
Björgu Jóhannsdóttur. Í frumbernsku flutti hann með þeim til Akureyrar og
þar átti hann fyrstu tíu ár ævi sinnar. Hann fylgdi síðan með þeim aftur til
Blönduóss. Á sumrin var hann í sveit hjá móðurbróður og frænda, Stefáni á
Höskuldsstöðum en á veturna hjá móðursystur sinni og ömmu á Blönduósi.
Eftir barnaskólann á Blönduósi var hann tvo vetur í Héraðsskólanum á
Reykjum. Þá hófst samfelld vinna við það sem til féll. Hann vann m.a. hjá
Sölufélagi A-Hún. og við hafnargerð á Skagaströnd. Hann hóf síðan nám í
trésmíði hjá Trésmiðjunni Stíganda á Blönduósi og bóknámið tók hann í
Iðnskólanum í Reykjavík.