Húnavaka - 01.05.2009, Síða 178
H Ú N A V A K A 176
Ármann átti 5 herbergja íbúð á 1. hæð og Friðrik aðra eins á 2. hæð en
jarðhæð og ris seldu þeir til að kljúfa kostnaðinn.
Þann 2. maí 1959 gekk Friðrik í hjónaband með Guðríði B. Helgadóttur
kvenklæðskera. Þau bjuggu fyrstu tvö árin í íbúðinni á Rauðalæk en vorið
1961 ventu þau kvæði sínu í kross og höfðu skipti
á íbúðinni og jörðinni Austurhlíð í Blöndudal.
Þangað fluttu þau hjónin 2. maí það sama ár og
stunduðu blandaðan búskap.
Þau eignuðust saman fjögur börn. Elst er Sig-
ríður Guðrún viðskiptafræðingur, fædd 1959, næst-
ur er Brynjólfur bóndi, fæddur 1960, þá er Kristín
stuðningsfulltrúi, fædd 1963 og yngst er Ólína Þóra
viðskiptafræðingur, fædd 1966. Frá fyrra hjónabandi
átti Guðríður tvö börn, Helga Sæmundsson
rafvirkjameistara, fæddur 1946 og Ásdísi
Sæmundsdóttur hjúkrunarforstjóra, fædd 1947.
Eftir að Friðrik hætti atvinnumennsku í
húsasmíðunum og flutti að Austurhlíð átti
búskapurinn hug hans allan. Þegar þau Friðrik og Guðríður hættu búskap árið
1988 og seldu jörðina syni sínum tóku þau undan sem séreign um 7 hektara
lands. Árið 1992 reistu þau sér notalegt timburhús og stofnuðu löglegt
iðnaðarbýli til trjáræktar. Síðustu veturna meðan Friðrik hélt heilsu lærði hann
að binda bækur og hafði það áhugamál sér til dægrastyttingar.
Heilsu Friðriks hrakaði ört síðasta árið sem hann lifði. Hann lagðist inn á
sjúkradeild Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi þann 21. apríl og átti þaðan
ekki afturkvæmt. Í veikindunum var áberandi að Friðrik hélt húmornum og
glettninni, sem var svo einkennandi fyrir hann, allt fram á síðasta dag.
Útför Friðriks Brynjólfssonar var gerð frá Bergsstaðakirkju 30. ágúst 2008.
Sr. Fjölnir Ásbjörnsson.
Ragnheiður Birna Hafsteinsdóttir,
Skagaströnd
Fædd 5. nóvember 1925 – Dáin 26. ágúst 2008
Ragnheiður Birna var fædd á Bergsstöðum í Miðfirði, dóttir hjónanna,
Hafsteins Sigurbjarnarsonar og Laufeyjar Jónsdóttur. Hún var önnur í röð sjö
systra. Látnar eru þær Jónína Þórey og Pálína Margrét en lífs eru Ingibjörg
Fríða, Guðný Aðalbjörg, Áslaug Aðalheiður og Ólína Gyða.
Ragnheiður Birna, sem hafði gælunafnið Bibba, átti frumbernskuárin sín í
Miðfirði en fimm ára gömul flutti hún með foreldrum sínum út að ysta sæ,
nánar tiltekið að bænum Háagerði á Skagaströnd. Síðar flutti hún í Reykholt
á Skagaströnd með fjölskyldu sinni.