Húnavaka - 01.05.2009, Page 182
H Ú N A V A K A 180
Í nær sextíu ár vann Þórhallur við sitt fag, síðast að Brimslóð og þar var
hann að störfum meðan hann gat heilsu sinnar vegna.
Þórhallur andaðist á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi eftir stutta
sjúkralegu og var útför hans gerð frá Blönduósskirkju þann 27. september.
Sr. Sveinbjörn Einarsson.
Erla Valdimarsdóttir
frá Skagaströnd
Fædd 8. júní 1934 – Dáin 29. september 2008
Erla fæddist á Ísafirði Hún var næstelst fjögurra barna Valdimars Valdimars-
son ar sjómanns og Sigríðar Ísaksdóttur konu hans. Eftirlifandi systkini hennar
eru Íslaug, Kristján og Elvar Þór.
Erla ólst upp á Ísafirði. Þar gekk hún í skóla og stundaði íþróttir, einkum á
veturna þegar færi gafst til að stunda skíði. En þegar hún var um fermingu,
varð fjölskyldan fyrir mikilli sorg er Sigríður móðir hennar lést úr krabbameini
langt um aldur fram. Íslaug var þá flutt suður en bræðurnir tveir fóru í fóstur
eftir lát móðurinnar.
Erla varð eftir fyrir vestan hjá föður sínum og dvaldi á Ísafirði allt fram yfir
það að hún lauk gagnfræðaprófi, þá fór hún suður til Reykjavíkur. Þar lærði
hún að sníða og sauma og varð fljótlega leikin í þeirri list, hefur líklega tekið
handlagni og gott handbragð móður sinnar í arf en Sigríður var saumakona
á Ísafirði.
Erla mun hafa verið um tvítugt þegar hún kynntist eiginmanni sínum,
Guðmundi Lárussyni. Þau hófu búskap sinn í Reykjavík árið 1955, fyrst á
Kárastíg þar sem elstu börnin fæddust en síðar fluttu þau í Kópavog.
Guðmundur var fæddur og uppalinn á Skagaströnd og árið 1961 fluttu þau
hjónin ásamt börnum sínum þangað. Þar stofnaði Guðmundur og rak
Trésmiðju Guðmundar Lárussonar sem síðar varð Trésmiðja og skipasmíðastöð
Guðmundar Lárussonar. Guðmundur stóð einnig fyrir stofnun rækjuvinnslu á
Skagaströnd og sá um rekstur hennar fyrstu árin.
Erla var heimavinnandi á fyrstu árum þeirra hjóna á Skagaströnd en það
voru ekki nein venjuleg heimilisstörf sem á herðum hennar hvíldu. Heimilið
var ævinlega mannmargt, barnahópurinn stór og stjórnun og umsjá fyrir-
tækjanna meira og minna inni á heimilinu. Auk þess var algengt að menn sem
tengdust atvinnurekstri þeirra hjóna þægju hjá þeim bæði fæði og húsnæði.
Erla var ósérhlífin og dugmikil með afbrigðum. Hún gaf sér lítinn tíma fyrir
eigin þarfir, heyrðist aldrei kvarta, en gekk hljóðlega og skipulega til verka
sinna og kom miklu í verk. Hvers kyns saumaskapur og hannyrðir léku í
höndum hennar. Hún prjónaði á börnin sín og saumaði, breytti gjarnan og
saumaði upp úr gömlum fötum.
Síðustu árin sem Erla og Guðmundur bjuggu á Skagaströnd starfaði Erla í
Rækjuvinnslunni hf.