Húnavaka - 01.05.2009, Page 194
H Ú N A V A K A 192
Desember.
Frost 7 stig að morgni fyrsta des.
Norðvestan snjóél og hopaði í 4 stig
um miðjan daginn. Mylgraði niður
snjó og 6 stiga frost um kvöldið.
Sólroði á suðurhimni 2., næsta kyrrt
og frost 10 stig. Hopaði í 5 stig um
miðjan daginn, 8 stig um kvöldið.
Góður vetrardagur 3. og sá til
Strandafjalla. Vægt frost 2-4 stig.
Norðaustan hríðargarg, klammar á
glugga 4., frost 2-4 stig. Bjartur
góðviðrisdagur 5. og frost 3-6 stig.
Suðvestangola og skúrir 6., hiti komst
í 4 stig. Stilltur dagur 7. og frost 1-2
stig. Hundslappadrífa 8. og frost 4 stig,
snjóaði drjúgt. Skafhríð 9. og frost 4-6
stig. Ófærð hér í heimreiðinni um
kvöldið og skóf mikið. Kominn eins
stigs hiti. Allstíf sunnangola og skúrir
10. og hiti 5 stig. Asahláka. Ég fór
suður í Mosfellsbæ, þar var 9 stiga hiti
um kvöldið. Síðdegis þann 11. var
ofsarok og regn í Mosfellsbæ. Stillt
veður og snjóföl yfir öllu 12. Hvítt út
að líta. Lögðum upp norður frá
Mosfellsbæ 13. í fegursta vetrarveðri.
Færið gott. Frostið snöggvast 12 stig
á há Holtavörðuheiðinni. En
ógleymanlega fallegt var veðrið og
hrímgað kjarrið og trjágróðurinn,
jafnvel klappir og steinar. Svo fagurlega
geta grimm veðraskil hjúpað og mótað
allt og sólskinið gerði sitt til að fegra
þó stuttur væri dagur. Frost 9 stig um
kvöldið. Snjólétt í A-Hún. Frost 10
stig þann 14. Kyrrt og snjór yfir. Fjúk
af og til um kvöldið. Svipað veður 15.
Féll í frostmark um kvöldið. Kyrrlátir
dagar 16. og 17. Frost 3-6 stig. Stillt og
kalt 18.-19. Frost 4-9 stig. Frost 11 stig
að morgni 20. Sunnankul og jörð víða
berrifin eftir nóttina. Grásprengt út að
líta 21. Hitastig við frostmark. Komið
5 stiga frost um kvöldið. Úrkomulaust.
Jörð mikið til auð í byggð 22. Nokkuð
þó um hjarnskafla og svell.
„Fátækraþurrkurinn“ fyrir hádegi.
Forátturegn og slydda með roki um
miðjan daginn. Hiti 6 stig um kvöldið,
sunnangola og stytti upp. Stíf
suðvestangola 23. og hiti þrjú stig.
Suðvestanrok og regndembur 24. Hiti
tvö stig um kvöldið og skúrir. Suð-
vestanrok og éljagangur allan daginn
25. Gráhvítt út að líta. Fagur sólroði í
suðri að morgni 26. andar við suður.
Hiti þrjú stig um kvöldið. Vorblíður
dagur 27., suðvestangola, hiti 2-6 stig.
Góðviðri 28. og hiti 6-8-6 stig.
Góðviðri 29. og hiti sjö stig. Ég opnaði
hjá hænunum sem drifu sig strax út.
Lokaði aftur um kvöldið. Gráhvítt út
að líta 30. af ísingu. Hiti þrjú stig kl.
7:00 að morgni. Frost þrjú stig um
kvöldið og norðaustankul en
úrkomulaust. Kalla mátti sumarfæri á
Þverárfjalli 31. Lognværð í Hjaltadal
um kvöldið. Áramótabrennan teygði
loga sína hátt til lofts.
Sigríður Höskuldsdóttir.
FRÉTTIR FRÁ
BLÖNDUÓSBÆ.
Samkvæmt heimildum
Hag stofu Íslands var íbúa-
fjöldi, 1. desember 2008, 908 sem er
fjölgun um 13 íbúa frá árinu áður.
Framkvæmdir og viðhaldsverkefni.
Á árinu var unnið áfram að skipu-
lagsmálum og hafin vinna að nýju
aðalskipulagi undir stjórn Yngva Þórs
Loftssonar, landslagsarkitekts hjá
Landmótun. Aðalskipulagið nær til
alls sveitarfélagsins og er ætlað að vera
áætlun um þróun þess næstu 12 árin.