Húnavaka - 01.05.2011, Blaðsíða 96
H Ú N A V A K A 94
STIKLAÐ Á STÓRU Í BYGGINGARSÖGUNNI FRÁ 1940
Að framan hefur því verið lýst hvernig meginþungi þéttbýlismyndunar á
Blöndu ósi hófst seint á 19. öld og fyrstu áratugi 20. aldar var hann innan ár-
inn ar. Frá árinu 1940 má hins vegar segja að meginþungi uppbyggingar
íbúðar- og atvinnuhúsnæðis hafi færst á nyrðri árbakkann, „út fyrir á“ eins og
heimamenn segja. Á árunum 1940-1960 byggðust Húnabraut og Árbraut,
meðfram ánni (Guðrún Jónsdóttir, 1996, bls. 23) og grunnskólinn reis á núverandi
stað.
Kraftmikil uppbygging hélt áfram beggja vegna árinnar 1960-1980 en þá
myndaðist meðal annars íbúðahverfið Brekkubyggð og Garðabyggð sunnan
árinnar, uppi á sjávarkambinum ofan og suðvestan við gamla þorpskjarnann
á eyrinni við árósinn. Sýnu meira hefur þó verið byggt norðan árinnar allt
fram á þennan dag og er því óhætt að segja að þungamiðja þéttbýlisins sé á
þeim slóðum. Gamli bærinn, með sína afhelguðu gömlu kirkju, gamalt hótel,
gistiheimili, krá, áfengisverslun og ýmis merk gömul hús í misjöfnu ástandi,
bíður þess sem verða vill.
FARARTÁLMINN BLANDA
Blanda, eins og aðrar stórar ár, hefur verið mikill farartálmi á Íslandi allt frá
landnámi. Ferjurekstur hófst því snemma á öldum og er þess getið í tíund ar-
lögum frá 1100 að fé, lagt til brúargerðar og „sæluskipa“ (ferja), væri skattfrjálst
(Bragi Guðmundsson, 1992, bls. 65). Á sumum jörðum hvíldi jafnvel skylda til ferju-
reksturs fyrir ferðamenn og voru það kallaðar lögferjur. Vöð voru jafnframt
mikilvæg í samgöngum fyrri alda og á Blöndu eru heimildir um bæði vöð og
ferjur eins og nærri má geta. Til dæmis er sérstaklega getið um Hrafnseyrarvað
sem gott og öruggt vað í heimildum frá 1873 (Bragi Guð munds son, 1992, bls. 66)
en það er um 4,5 km frá árósnum niður af bænum Björnólfsstöðum í Langa-
dal. Í sömu heimild er sagt frá því að þar fyrir neðan sé Strákavað, sem „megi
fara hættulaust þegar áin er lítil“. Næsti bær fyrir neðan Björnólfsstaði heitir
Breiðavað, sem enn fremur bendir til þess að á þessum slóðum hafi gjarna ver-
ið farið yfir ána. Þá segir frá því að í sóknarlýsingum sé getið um ferju á
ósnum, í landi Ennis, árið 1839. Í ferjureglugerð sýslunefndar Húnavatnssýslu
frá árinu 1877 er svo minnst á þrjár ferjur á Blöndu, þar af eina á Blönduósi
(Bragi Guðmundsson, 1992, bls. 68). Bragi greinir frá því að illa muni hafa gengið
að fá menn til að annast ferjuna á ósnum en árið 1881 hafi væntanlegur veit-
inga maður á Blönduósi, Jón Gíslason, óskað eftir því að annast verkefnið. Var
það víst auðsótt mál en ári síðar vildi hann losna. Þá tók við rekstrinum Jóhann
Möller kaupmaður, sem rak verslun á Blönduósi frá 1877. Hann hafi líka ósk-
að eftir því að losna við ferjureksturinn eftir eitt ár. Loks er vitað til þess að árið
1896 óskaði þáverandi ferjumaður eftir því að losna við reksturinn og árið
eftir, 1897, var fyrsta brúin á Blöndu vígð.
Enginn vafi leikur á því að með tilkomu brúarinnar beindist umferð á landi æ
meira að Blönduósi og mikilvægi þorpsins sem verslunar- og þjónustukjarna jókst