Lögmannablaðið - 01.09.2005, Blaðsíða 14
14
verður í huga að um mikilvæg réttindi málsaðila er
að ræða að fá rökstuðning fyrir niðurstöðu dóma,
t.d. er það grundvöllur þess að leggja megi mat á
hvort dómi verði áfrýjað.
Efnisreglur málskostnaðarákvörðunar
Málskostnaður látinn niður falla.
Í 130. og 131. gr. eml. eru helstu reglur um
ákvörðun málskostnaðar. Af einstökum málskostn-
aðarákvörðunum er sýnt að fyrrnefnd meginregla
1. mgr. 130. gr. hefur verið túlkuð sem nokkurs
konar sanngirnisregla þar sem horft er til mismun-
andi stöðu aðila. Algengt er að málskostnaður ein-
staklinga sem tapa máli gegn tryggingafélögum og
íslenska ríkinu og öðrum stjórnvöldum sé látinn
niður falla. Málskostnaður er hins vegar látinn
niður falla í fleiri tilvikum þar sem aðstöðumunur
aðila er ekki fyrir hendi, t.d. í forræðismálum og
málum sem eiga það sammerkt að fjárhagslegir
hagsmunir eru ekki miklir. Engar skýringar fylgja
slíkum ákvörðunum og erfitt er að átta sig á hvaða
sérstöku atriði leiða til þess að málskostnaður sé
látinn niður falla.
Undantekningarreglur varðandi málskostnað
kveða ekki sérstaklega á um að horfa eigi til fjár-
hagslegra hagsmuna í máli varðandi málskostnað.
Auk þess er fjárhagslegt gildi mála afar teygjanlegt
viðmið, því litlar fjárhæðir geta varðað einstaklinga
miklu og ýmis ófjárhagsleg réttindi hafa oft mikla
þýðingu. Tilvik þar sem málskostnaður er látinn
niður falla í ,,litlum” málum byggja e.t.v. á sjónar-
miðum um að mál sé höfðað af þarflausu, sbr. b-lið
1. mgr. 131. gr. Slíkt stenst varla því meginreglan
um að almenningur hafi aðgang að dómstólum til
að leysa úr ágreiningsmálum sínum er alveg hlut-
laus um fjárhagslegt gildi mála. Þótt málskostnaður
sé hátt hlutfall m.v. dómkröfur ætti það ekki að
hafa áhrif á málskostnaðarákvörðun, enda er máls-
kostnaður þess sem tapar málinu í verulegum
atriðum þá mun þarflausari.
Í 3. mgr. 130. gr. eml. er sérregla um þau tilvik
þegar mál tapast að nokkru eða veruleg vafaatriði
eru í máli. Má þá dæma annan til að greiða hluta
málskostnaðar hins eða láta hvorn þeirra bera sinn
kostnað af málinu. Ekki er hægt að gagnálykta frá
þessu ákvæði um að ekki megi skipta málskostnaði
eða fella niður í öðrum tilfellum. Hins vegar ætti
þessi sérregla að hafa þá þýðingu að alveg sérstök
atriði þurfa að vera fyrir hendi til þess að víkja
megi frá meginreglu 1. mgr. 130. gr. Fyrst og
fremst á að láta málskostnað falla niður ef lyktir
máls eru hálfsigur hvors aðila.
Heimild til þess að fella niður málskostnað óháð
niðurstöðu er einnig í síðari málslið 3. mgr. 130. gr.
þegar sá sem tapar máli hvorki var né mátti vera
kunnugt um þau atvik sem réðu úrslitum fyrr en
eftir að mál var höfðað. Að mati undirritaðs hvetur
þetta lögmenn til að leita sátta áður en mál er
höfðað, enda ætti þá síður að koma til takmörkunar
á málskostnaði. Í tilvikum þar sem sátta hefur verið
leitað fyrir málshöfðun ættu möguleikar á að fella
niður málskostnað að vera þrengri en ella. Þetta
styður ennþá frekar þá fullyrðingu sem fram kom
fyrr, að lögmannskostnaður við sáttavinnu eigi að
teljast hluti málskostnaðar.
Umfjöllun um málskostnaðarákvarðanir þar sem
kostnaður er látinn niður falla gæti verið lengri, en
botninn er slegin í hana með því að benda á ákvæði
2. mgr. 130. gr. eml. Þar er kveðið á um stefnanda
skuli gert að greiða stefnda málskostnað ef máli er
vísað frá dómi eða það fellt niður af annarri ástæðu.
Dómurum virðist ekki fengið mikið svigrúm við
slíkar málskostnaðarákvarðanir, hins vegar virðist
því þó beitt að láta málskostnað falla niður við frá-
vísun mála, t.d. þegar einstaklingar hafa höfðað
ódómtæk mál gagnvart stjórnvöldum. Réttmæti
slíkra ákvarðana virðist nokkuð vafasamt.
Málskostnaður takmarkaður
Þegar aðila er dæmdur málskostnaður er mjög
algengt að tildæmdur málskostnaður sé lægri en sá
sem krafist er. Rökstuðningur óskast! Lækkun máls-
kostnaðar er eflaust réttlætanlegur í einhverjum til-
fellum. Ekki er bein heimild til lækkunar málskostn-
aðar í XXI. kafla eml. en ljóst er að ákvæði 3. mgr.
130. gr. byggja á því að hluti málskostnaðar verði
greiddur þegar mál vinnast að nokkru leyti. En hvað
með tilvik fullnaðarsigurs mála?
Vegna skorts á rökstuðningi málskostnaðar-
ákvarðana er erfitt að átta sig á hvort takmörkun til-
dæmds kostnaðar skýrist af einhvers konar sann-
girnismati skv. 1. mgr. 130. gr. eml. eða af því að
hluti lögmannsvinnu sé ekki talinn málskostnaður í
skilningi 129. gr. eml. eða ósannað að svo sé.
Meginregla 1. mgr. 130. gr. eml. heimilar ekki
sérstaklega lækkun málskostnaðar. Með harðlínu-
stefnu við lögskýringar mætti halda því fram að
greinin kveði á um að málskostnaður væri annað
hvort dæmdur að fullu eða að hann væri að öllu
leyti felldur niður. Eðlilegra er þó að skýra greinina
svo að heimild til algjörrar niðurfellingar máls-
kostnaðar heimili takmörkun hans. Í ljósi orðalags
greinarinnar sem meginreglu, ætti takmörkun máls-
kostnaðar vegna einshvers konar sanngirnismats
einungis að vera heimil í undantekningartilfellum.
Við málskostnaðarákvörðun er málskostnaðar-
3 / 2 0 0 5