Lögmannablaðið - 01.09.2005, Blaðsíða 17

Lögmannablaðið - 01.09.2005, Blaðsíða 17
17 þessari meginreglu eru nokkrar undantekningar sem síðar verður vikið að. Jafnvel þótt dómari ákveði að sá sem tapar eigi að greiða gagnaðila sínum fullan málskostnað þarf dómarinn samt sem áður að ákveða þessar bætur með hliðsjón af almennum reglum skaðabótaréttar, m.a. reglunni um að tjón- þoli eigi að reyna að takmarka tjón sitt eftir því sem hægt er að ætlast til af honum með sanngjörnum hætti. Þótt málskostnaðarreikningur, eða tíma- skýrsla og tímagjald lögmanns, veiti mikilvæga leiðbeiningu um þessar bætur þarf dómarinn að athuga hvort um raunverulegan kostnað er að ræða og eins hvort eðlilegt og sanngjarnt hafi verið að leggja í umræddan kostnað með hliðsjón af þeim hagsmunum sem voru í húfi. Með hliðsjón af því getur skipt máli hversu trúverðuga grein lögmaður gerir fyrir því hvaða þóknun hann muni krefja umbjóðanda sinn um og vænlegast til árangurs að leggja fram kvittun fyrir greiðslu lögmannsþókn- unar. Ýmsar breytingar voru gerðar á dönskum réttar- farslögum með lögum nr. 554/2005, sem munu taka gildi 1. janúar 2007, þ.á.m. eru mun ítarlegri ákvæði um málskostnaðarákvarðanir en er að finna í réttarfarslögum hér á landi. Í ákvæði sem verður að 1. mgr. 216. gr. réttarfarslaga segir að máls- kostnaður eigi að bæta þau útgjöld sem hafa verið nauðsynleg til þess að tryggja forsvaranlega með- ferð málsins. Útgjöld vegna lögmannskostnaðar skulu bætt með hæfilegri fjárhæð og önnur útgjöld að fullu. Í Noregi hefur verið lagt fram frumvarp að nýjum lögum um meðferð einkamála, (Ot.prp. nr. 51, 2004-2005), lov om mekling og rettergang i sivile tvister (tvisteloven). Í 1. tl. greinar 20.5 í frumvarpinu er mælt fyrir um ákvörðun bóta fyrir kostnað af meðferð máls með þessum hætti: Full erstatning for sakskostnader skal dekke alle partens nødvendige kostnader ved saken som ikke særlige regler gir grunnlag for å unnta. Ved vurder- ingen av om kostnadene har vært nødvendige, legges det vekt på om det ut fra betydningen av saken har vært rimelig å pådra dem. Parten kan kreve rimelig godtgjøring for eget arbeid med saken når det har vært særlig omfattende eller det ellers måtte ha vært utført av en prosessfullmektig eller annen fagkyndig hjelper. Mér virðist sem íslenskir dómarar hafi hliðsjón af sambærilegri reglu og fram kemur í dönsku lög- unum og norska frumvarpinu við ákvörðun máls- kostnaðar í einkamálum. Ef dómari miðar við að hann sé að dæma fullan málskostnað en víkur þó verulega frá framlögðum málskostnaðarreikningi eða tímaskýrslu og tímagjaldi er hægt að gera þá kröfu að hann rökstyðji það sérstaklega. Í 3. mgr. 130. gr. EML eru tiltölulega almennt orðaðar undantekningar frá meginreglunni í 1. mgr. sem má beita ef aðili vinnur mál að nokkru en tapar því að nokkru eða veruleg vafaatriði eru í máli og má þá dæma annan aðilann til að greiða hluta máls- kostnaðar hins eða láta hvorn þeirra bera sinn kostnað af málinu. Sérstakar undantekningarreglur eru síðan í 131. gr. Sjaldnast er tekið til varna í máli án þess að um einhvern réttarágreining sé að ræða. Hvort vafi um sönnun eða beitingu réttarreglna telst verulegur að þessu leyti er háð mati dómara. Eðlilegt er að umræddur vafi dómara komi fram í rökstuðningi fyrir efnislegri niðurstöðu en ekki eingöngu í rök- stuðningi málskostnaðarákvörðunar. Dómarar ættu að hafa fyrir reglu að láta þess getið í rökstuðningi hvort þeir eru að dæma fullan málskostnað eða ein- ungis hluta af honum og af hvaða ástæðu. Slíkur rökstuðningur gerir þeim sem ekki fær dæmdan fullan málskostnað auðveldara með að skilja að lögmaður hans eigi eða geti átt tilkall til hærri þóknunar en gagnaðili er dæmdur til að greiða. Sér- staklega þarf að færa rök fyrir því af hverju hvor aðili er dæmdur til að greiða sinn kostnað þótt annar vinni málið í öllu verulegu. Þar sem málskostnaðarákvarðanir eru sjaldnast mikið rökstuddar verður oftast að lesa milli línanna hvaða rök hafi legið að baki ákvörðun. Alkunnugt er að einstaklingar sem höfða mál á hendur ríkinu, tryggingarfélögum og stórfyrirtækjum eru sjaldnast dæmdir til að greiða málskostnað þótt þeir tapi máli að öllu leyti og þótt ekki virðist mikill vafi í huga dómara um þá niðurstöðu. Þótt í einhverjum til- vikum sé ástæðan sú að dómarar telji viðkomandi hafa haft nokkuð til síns máls virðist samúð með þeim minni máttar í fleiri tilvikum vera hin raun- verulega ástæða. Er ástæða til að taka upp viðmiðunarreglur fyrir héraðsdómstólana í einkamálum eins og í sakamálum? Það tel ég ekki æskilegt nema ef vera skyldi að viðmiðunarreglurnar verði einnig lagðar til grund- vallar í gjafsóknarmálum sem eitthvað virðist tíðkað í reynd. Í nágrannalöndum okkar er mis- munandi háttur hafður á að þessu leyti. Í Noregi gefur dómsmálaráðuneytið út leiðbeiningar m.a. til dómstóla og lögreglu um tímagjald lögmannsþókn- unar í sakamálum og gjafsóknarmálum. Sjá síðast L Ö G M A N N A B L A Ð I Ð

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.