Lögmannablaðið - 01.10.2010, Blaðsíða 23

Lögmannablaðið - 01.10.2010, Blaðsíða 23
LÖGMANNABLAÐIÐ – 3 / 2010 > 23 Af Merði lögmanni Mörður er búinn að lesa rannsóknarskýrslu Alþingis spjaldanna á milli og hefur komist að því að hann er einn örfárra manna sem ber ekki sök á Hruninu. Og eftir lestur siðferðiskaflans er ljóst að Mörður er sennilega eini maðurinn á landinu sem er ekki siðferðislegt flak. Það eru því menn eins og Mörður sem eiga byggja upp nýtt og betra Ísland. Eins og Mörður hefur alltaf sagt þarf fleiri lúða við stjórnvölinn. Þeir mega bulla hvaða vitleysu sem er. Svo er íslenska þjóðin alltaf umburðarlynd gagnvart fíflum og fíflalátum. Þegar lúðar bjóða sig fram eru líka önnur viðmið í gildi en hjá öðrum frambjóðendum. Í lúðaframboðum skiptir kynjahlutfall ekki máli enda eru karlmenn bara lúðar en ekki konur. Fagmennska skiptir ekki heldur máli þegar fyndnir lúðar bjóða sig fram. Íslendingar eru hvort eð er heimsmeistarar í að kjósa fólk til áhrifastarfa sem ekkert veit og ekkert kann. Mörður getur því ekki verið verri en þeir sem fyrir voru. Mörður hefur því ákveðið að stofna flokk lúða og bjóða sig fram til næstu þingkosninga þrátt fyrir varnarorð allra sem til Marðar þekkja, hvort sem er mikið eða lítið. Mörður heldur að kjörþokki muni ekki skipta máli í hinu nýja Íslandi. Mörður var að vísu svolítið hugsi og hafði áhyggjur af því hvað hin sérstaka stétt stjórnmálafræðinga segði við framboðinu. Mörður hefur aldrei skilið þessi fræði og telur að þau séu ruslakista fyrir fólk sem getur ekki lært neitt sem vit er í. Svo mundi Mörður að stjórnmálafræðingar segja aldrei neitt annað en sem allir vita og hurfu þá áhyggjur Marðar. Mörður hefur hins vegar talsverðar áhyggjur þegar farið verður að grafa upp fortíðina. Það er víst alltaf gert þegar einhver vogar sér í framboð. Mörður reykti hass í MH í gamla daga og var uppnefndur Möddi hasshaus. En það verður kannski horft framhjá því enda hassneysla hluti af menningu MH inga. Það hafa nefnilega einhverjir háskólakennarar í félagsfræðum fundið það upp að öll vitleysa er í lagi ef hún er hluti af menningu. Þess vegna er í lagi að skylda konur sums staðar til að klæðast flíkum sem hylja þær frá toppi til táar þótt þær drepist fyrir aldur fram úr öndunarsjúkdómum Það sem kann að koma Merði verst í kosningabaráttunni eru smásögurnar og limrurnar sem Mörður samdi á skólaárum sínum. Mörður samdi nefnilega klámsögur og klúrar vísur á þeim tíma. Háskólakennarar og fræðimenn hafa nefnilega komist að því að í klámi og klúrum vísum felist mikil hætta fyrir íslenskt samfélag og konur sérstaklega. Það er því ekki víst að Mörður geti skýlt sér bak við það að frjálsar ástir og klúrar vísur hafi verið hluti af menningu 68 kynslóðarinnar, en Mörður tilheyrir þeirri ágætu kynslóð sem fékk allt upp í hendurnar fyrir ekki neitt. Mörður missti samt einhvern veginn af öllu sem þessi kynslóð fékk. Kannski gæti Mörður sloppið við árásir vegna klúru vísnanna ef hann kæmi út úr skápnum. Það má nefnilega ekki ráðast að mönnum sem tilheyra minnihlutahópum. Mörður gæti haldið því fram að klúru vísurnar væri hluti af menningu þeirra sem hírst hafa í skápnum lengi. Mörður mun sennilega samt sleppa því að fara hálfberrassaður í gleðigöngu fyrir framan alla þjóðina. Það er af fagurfræðilegum ástæðum. *Mörður lögmaður hefur verið önnum kafinn undanfarið við að mótmæla á Austurvelli og ekki gefið sér tíma til að skrifa pistil fyrir Lögmannablaðið. Mun það vera í fyrsta skipti síðan Lögmannablaðið hóf að koma út 1998 sem gripið er til þess ráðs að endurbirta fyrri pistil. xxxx

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.