Lögmannablaðið - 01.03.2012, Blaðsíða 16

Lögmannablaðið - 01.03.2012, Blaðsíða 16
16 lögmannaBlaðið tBl 01/12 UMfJöllUn ráðagerð um skattalagabrot í máli Úrskurðarnefndar lögmanna nr. 12/2011 taldi nefndin rétt að veita lögmanni áminningu þar sem háttsemi hans var talin stangast á við ákvæði 1. gr. og 2. gr. siðareglna lögmanna. málsatvik voru á þá lund að kærandi átti í hjónaskilnaðarmáli við eiginkonu sína. Var þar deilt um bæði forsjá og fjárskipti og kom hinn kærði lögmaður fram fyrir hönd eiginkonunnar fyrrverandi. Lögmenn aðila náðu samkomulagi um fjárskiptin sem fólst meðal annars í því að kærandi skyldi greiða fyrrum eiginkonu sinni 500.000 krónur vegna lögmannskostnaðar hennar. Í ljósi þess að kærandi átti erfitt með að greiða þann kostnað bauðst hinn kærði lögmaður til þess að bíða með að gefa út reikning vegna lögmannskostnaðarins í um tveggja mánaða skeið. Einnig bauðst lögmaðurinn til þess að stíla reikninginn á einkahlutafélag kæranda í því skyni að félagið gæti nýtt innskatt til frádráttar á virðisaukaskattsgreiðslum. Lögmaður kæranda kvað umbjóðanda sinn hins vegar ekki vilja að reikningurinn yrði gefinn út á einkahlutafélag hans og var það þá úr sögunni að mati lögmanns konunnar. Þegar reikningurinn var á endanum gefinn út á kæranda þá krafðist hann þess að hann yrði felldur niður ella myndi kærandi nýta fyrri samskipti, m.a. það boð að gefa reikninginn út á einkahlutafélag, til að koma höggi á lögmanninn. Að lokum greiddi kærandi þó umræddan reikning en kom málinu um leið á framfæri við úrskurðarnefnd lögmanna. Hinn kærði lögmaður taldi hins vegar að hótanir kæranda varða við ákvæði 251. gr. almennra hegningarlaga og tilkynnti þær til lögreglu. Í erindi sínu fyrir úrskurðarnefndinni gerði kærandi þrenns konar kröfur. Í fyrsta lagi krafðist hann þess að lögmanninum yrði umsvifalaust vikið úr Lögmannafélagi Íslands. Í öðru lagi að félagið gæfi út yfirlýsingu um vanhæfi lögmannsins og í þriðja lagi að lögmanninum yrði meinað að starfa eða kalla sig lögmann og myndi því missa réttindi sín sem slíkur. Hinn kærði lögmaður krafðist aftur á móti að málinu yrði vísað frá nefndinni en til vara að öllum kröfum kæranda yrði hafnað. úrskurðarnefndin taldi að með vísan til ákvæða 27. gr. lögmannalaga, þá yrði að vísa frá kröfum kæranda um að lögmanninum yrði umsvifalaust vikið úr Lögmannafélagi Íslands og þeirri kröfu að félagið gæfi út yfirlýsingu um vanhæfi hans. Hins vegar taldi nefndin það ekki varða frávísun málsins þótt kærandi tilgreindi ekki þau ákvæði skattalaga og siðareglna lögmanna sem hann taldi hinn kærða lögmann hafa brotið. Í því sambandi vísaði nefndin til þess að stjórnsýslulög geri ekki svo strangar kröfur til málshefjenda að þeir rökstyðji erindi sín með ítarlegri tilvísan til ákvæða laga og annarra reglna. Nefndin taldi einnig ljóst hvaða ákvæði siðareglna lögmanna kæmu til álita í málinu. úrskurðarnefndin byggði á því að fyrir lægi í gögnum málsins ráðagerð lögmannsins um að reikningur hennar, sem kæranda bar að greiða samkvæmt skilnaðarsamkomulagi, yrði stílaður á einkahlutafélag kæranda. Einnig lá fyrir að ráðagerð þessi var skýrð með því að umrætt einkahlutafélag gæti þar með ranglega nýtt innskattinn til frádráttar á sínum virðisaukaskattsgreiðslum. Nefndin taldi að lögmaðurinn hefði með þessari ráðagerð um skattalagabrot við rækslu lögmannsstarfa brotið gegn starfsskyldum sínum og rétt væri að veita henni áminningu. Ingvi Snær Einarsson hdl. Úr codex

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.