Víkurfréttir


Víkurfréttir - 15.12.2011, Blaðsíða 24

Víkurfréttir - 15.12.2011, Blaðsíða 24
24 FIMMTudagurInn 15. dESEMbEr 2011 • VÍKURFRÉTTIR Og hvar er vinnustaðurinn? Hann er í námu í Marmor- ilik í Uummannaqfirði á vestur- strönd Grænlands, langt fyrir norðan hinn byggilega heim. Náman er í fjalli sem heitir Black Angel eða Svarti engillinn og er inngangurinn í námuna í 600 metra hæð utan í snarbröttum kletti. Til þess að komast inn í námuna þarf í dag að notast við þyrlu sem lendir á þyrlupalli í 740 metra hæð. Þaðan þarf að fara niður snarbrattan stiga niður að námuopinu. Stiginn er 416 þrep og tekur bæði á rass og læri. Það tekur 3-7 mínútur að fara niður stigann og ræðst af veðri. Hins vegar getur tekið um stundar- fjórðung að ganga upp stigann eða jafnvel nokkra klukkutíma ef koma þarf sjúklingi upp stigann. Námunni í Svarta englinum var lokað árið 1990 eftir að hafa verið í notkun í 17 ár. Kapalvagnar voru notaðir til að flytja starfsmenn í námuna og hráefni út úr námunni. Gömlu kapalvagnarnir höfðu verið teknir niður og það hefur verið verkefni frá 2007 að undirbúa upp- setningu á nýjum kapalvögnum til þess að hægt sé að byrja aftur að vinna í námunni. Björgunarstörf í lóðréttum stigum Haraldur var ráðinn til starfa í nám- unni til að hafa yfirumsjón með öryggismálum og eins sem sjúkra- flutningamaður með það verkefni að koma slösuðum út úr námunni og upp á þyrlupallinn sem er 140 metrum fyrir ofan námuopið. Það er gríðarlega flókið og erfitt verk- efni enda stigarnir utan í bjarginu brattir en þar til fyrir stuttu síðan voru þeir lóðréttir utan í bjarginu. Í sumar voru byggðir nýir stigar utan í bjargið í stað þeirra sem áður voru og hafa nýju stigarnir aukið öryggi til muna og dregið úr áhættu við að fara í og úr námunni. Í dag fara um 35 manns með þyrl- unni upp í fjallið og um stigana til að komast til og frá vinnu. Starfs- mönnum mun fjölga til muna á næstunni því um mitt næsta ár er gert ráð fyrir að starfsmenn í nám- unni verði orðnir um 500 talsins. Þeir munu flestir nota kapalvagn- inn en stigarnir og þyrlupallurinn verða áfram til staðar ef bilun verður í kláfnum. Langir vinnudagar Haraldur segir að vinnudagarnir í Marmorilik séu langir. Þeir hefjast kl. 06 með morgunmat en farið sé í fjallið kl. 07. Allir eru skráðir út úr vinnubúðunum og séð til þess að allir séu með sinn öryggisbúnað og að fjarskiptatæki séu í lagi. Eftir hádegi fer Haraldur í námuna en hans verkefni er að ganga úr skugga um það að allur búnaður sé í lagi og að öryggisreglum sé framfylgt. Þá annast hann einnig þjónustu við lítil veiðimannaþorp á svæðinu en sjúkrahús á Grænlandi sendir beiðnir til hans um að sinna slösuðum eða veikum á svæðinu og búa þá til flutnings á sjúkrahús. Á svæðinu er nokkuð af smáþorpum með 60-120 íbúum hvert þar sem lífið snýst um veiðar. Engin önnur atvinna er á svæðinu. Frostið niður í -47°C Í námunni hefur Haraldur fengið að takast á við fjölbreytt verkefni. Slys verður þegar menn falla eða ef eitthvað fellur á þá. Þá eru menn að klemmast, handleggsbrotna og fótbrotna. Þá eru einnig dæmi um hjartaáföll og heilablóðfall. Allt þetta krefst fumlausra viðbragða. Þegar útkall kemur úr námunni fer flugmaður þyrlunnar og gerir hana klára fyrir flug upp í fjallið á meðan Haraldur klæðir sig upp í sinn galla og tekur með sér neyðartöskuna sem inniheldur allan þann helsta búnað sem þarf til að sinna erfiðu útkalli. Haraldur segir erfiðasta hlutann vera að koma manninum úr námunni og upp á þyrlupallinn. Það er alltaf einn sjúkraflutninga- maður á vakt hverju sinni og þá er stólað á aðra starfsmenn í námunni til að aðstoða við að koma börum með sjúklingi upp stigana. Har- aldur segir að veður ráði einnig miklu um björgunarstörf. Stundum getur verið betra að geyma hinn slasaða í námunni frekar en að fara með hann út í stigana en það getur tekið nokkrar klukkustundir að koma hinum slasaða upp. Síðasta vetur fór frostið í Marmorilik niður í -47°C í miklum vindi. Haraldur tekur fram að í námunni sé mjög góð aðstaða til að sinna slösuðum og þar sé allur helsti neyðarbún- aður og sjúkrabörur. Hann beri hins vegar sjálfur á sér bakpoka með neyðarbúnaði hvert sem hann fer, enda aldrei vitað hvenær útkall berst. Öryggismálum á Grænlandi ábótavant Eins og kom fram hér áðan hefur Haraldur farið til aðstoðar í veiði- mannaþorp á svæðinu og þá hefur hann farið upp á íshelluna til að- stoðar við gönguskíðafólk sem þar var á göngu. Einn úr hópnum féll niður um sprungu og slasaðist al- varlega. „Maður tekur bara því sem að höndum ber í þessum málum,“ segir Haraldur. Hann segir öryggismálum á Græn- landi ábótavant. Þekking í skyndi- hjálp er lítil, öryggisvesti á sjó eru sjaldgæf og þá segist hann ekki sjá börn með hjálma þegar þau eru úti að hjóla. Öryggisvitund sé ekki til staðar. Með námustarfsmenn í gíslingu Slysum í námunni í Svarta engl- inum hefur fækkað nokkuð eftir að Haraldur og Ingvi hófu vinnu sína í öryggismálum. Haraldur gantast með það að hann hafi nám- ustarfsmennina í gíslingu. Þannig séu allir í fallbeltum við vinnu sína inni í námunni. Hann segir FURHUGA ATVINNA FYRIR Ævintýragjarnan sjúkraflutningamann vantaði til Grænlands. Haraldur Haraldsson sjúkraflutninga- og slökkviliðsmaður í Reykjanesbæ og björgunarsveitar- maður úr Björgunarsveitinni Suðurnes sótti um starfið og fékk. Hann segir í samtali við Víkurfréttir að hann hafi í raun ekki gert sér grein fyrir því út í hvað hann var að fara fyrr en hann mætti í vinnuna fyrsta daginn. Danska vinnueftirlitið segir að þetta sé hættulegasti vinnustaðurinn í danskri lögsögu og staðurinn fær reglulegar heim- sóknir danska vinnueftirlitsins vegna þess. Samstarfsmaður Haraldar í námunni er Ingvi Kristinn Skjaldarson sem kemur einnig frá Björgunarsveitinni Suðurnes en Haraldur fékk hann til að starfa á móti sér í öryggismálunum. Þeir starfa í námunni í sex vikur og fara svo heim til Íslands í 3ja vikna frí á milli. Þegar Haraldur er úti er Ingvi heima og öfugt. Þeir félagar eru báðir húsasmiðir og sjúkraflutningamenn og hafa starfað í björgunarsveit í tvo áratugi. Haraldur bíður eftir þyrlunni á þyrlupallinum utan í hlíð fjallsins í 748 m.y.s. Haraldur í snar- brattri hlíð Svarta engilsins. Með myndavélina fasta við hjálminn og á bakvið hann má sjá stigann sem er alveg lóðréttur og alls ekki árennilegur. Viðtal: Hilmar Bragi Bárðarson // Myndir: Úr einkasafni

x

Víkurfréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Víkurfréttir
https://timarit.is/publication/1102

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.