Skírnir - 01.01.1943, Blaðsíða 26
24
Halldór Hermannsson
Skírnir
ur rauði; en í höfðingjatalinu eru einungis tveir nefndir:
Mörður gígja og Jörundur Hrafnsson. Hafa menn skilið
svo, að Mörður hafi verið fyrir goðorði Sighvats niðja og
Jörundur fyrir Dalverjagoðorði. En þá er hér enginn
nefndur af Hofverjum. Hrafns Hængssonar er að vísu
getið í enda greinarinnar sem lögsögumanns, en lögsögu-
maðurinn þurfti ekki að vera goði, þótt hann ef til vill
oftast væri það. Nú er samt lítill efi á því, að Hrafn hafi
verið goði, og gerir því þetta grunsamlegt sambandið milli
landnámsmannatalsins og höfðingjatalsins. Það mætti
ætla, að höfundurinn hafi ekki verið alveg viss í sinni sök,
eða að eitthvað bæri hér á milli. Brynjólfur frá Minna-
Núpi gat þess til, að Mörður gígja kynni að hafa átt hlut
í Hofverjagoðorði, en gerði þó þeirri tilgátu sinni ekki
full skil.6) Það eru einmitt allmiklar líkur fyrir því, að
svo hafi verið. Njála segir, að Mörður hafi búið á Velli,
og er hún ein um það, en undir það renna þó nokkrar
stoðir annars staðar frá. Á elleftu öld var uppi skáldið
Valgarður á Velli, og er varla efi á því, að hann hafi verið
sonur Mörðs Valgarðssonar; hefir hann þannig búið á
jörð langafa síns. Egils saga segir, að Helgi Hængsson
hafi búið á Velli, og hún og Landnáma segja, að hann hafi
átt Mábil Hallgeirsdóttur úr Hallgeirsey, en Sturlubók og
Hauksbók segja á öðrum stað, að hann hafi átt Valdísi
Jólgeirsdóttur. Líklega hefir Helgi því verið tvígiftur, og
þegar hann giftist Valdísi, hafi hann flutt að Jólgeirs-
stöðum, og Mörður gígja þá sennilega farið að Velli. Hver
var kona Marðar vitum við ekki, en það er ekki ólíklegt,
að hún hafi verið af ætt Hofverja, ef til vill dóttir Hrafns
eða Helga Hængssona. Sæbjörn goði Hrafnsson átti Unni
Sigmundsdóttur, systur Marðar. Gegnum mægðir getur
Mörður þannig hafa orðið meðeigandi Hofverjagoðorðs,
og ef til vill farið með það eftir dauða Hrafns lögsögu-
manns, sem líklega hefir orðið skömmu eftir að hann lét
af lögsögn (950), en talið hefir verið, að Mörður hafi dá-
ið um 970. Þess er hvergi getið, að hann hafi átt son, og
hefir því hluti hans í goðorðinu fallið til Valgarðs tengda-