Bændablaðið - 16.04.2014, Page 6

Bændablaðið - 16.04.2014, Page 6
6 Bændablaðið | Miðvikudagur 16. apríl 2014 Málgagn bænda og landsbyggðar Bændablaðið kemur út hálfsmánaðarlega. Því er dreift til allra bænda landsins og fjöl margra annarra er tengjast land búnaði. Bændablaðinu er dreift ókeypis til þeirra er stunda búskap en þéttbýlisbúar geta gerst áskrifendur að blaðinu. Árgangurinn kostar kr. 7.200 en sjötugir og eldri og lífeyrisþegar greiða kr. 3.600. Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík. Sími: 563 0300– Fax: 562 3058 – Kt: 631294-2279 Ritstjóri: Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is – Sími: 563 0339 – Rekstur og markaðsmál: Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is Blaðamenn: Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Freyr Rögnvaldsson fr@bondi.is – Sigurður M. Harðarson smh@bondi.is Auglýsingastjóri: Erla H. Gunnarsdóttir ehg@bondi.is – Sími: 563 0303 – Myndvinnsla og frágangur: Prentsnið. Netfang blaðsins (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is Netfang auglýsinga er augl@bondi.is Vefsíða blaðsins er www.bbl.is Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Landsprent og Íslandspóstur annast dreifingu blaðsins. ISSN 1025-5621 LEIÐARINN Tíminn er sannarlega afstæður og engu líkara en jörðin snúist hraðar í dag en í gær. Þó örlítið hökt verði á veðrinu nú um páskana er samt greinilegt að sumarið mun leggja vetur konung að velli innan skamms, ja, nema kannski á Snæfjallaströnd við Ísafjarðardjúp. Þar en fannfergi enn gríðarlegt að sögn Indriða Aðalsteinssonar bónda. Vorverkin í sveitum ættu því víðast hvar að geta farið fram með nokkuð skaplegum hætti þetta árið. Talandi um vorverk, þá bólar enn lítið á raunverulegum lausnum á þeim vanda sem steðjar að bændum landsins í vaxandi mæli og lýtur að ásókn af álft og gæs. Þeim sem ferðast um landið er löngu orðið ljóst að miklu mun meira af t.d. álft hefur vetursetu á Íslandi en opinberlega er viðurkennt. Þúsundir álfta má sjá á túnum bænda allt árið um kring og í fjörum þar sem fuglinn getur nælt sér í þang til átu. Um leið og nýgræðingurinn fer að skjótast upp úr moldfinni á túnum bænda er álftin og gæsin mætt og slíta upp stráin af mikilli lagni. Á nýræktarspildum er ekki óalgengt að sjá fuglahópa svo hundruðum skiptir og alveg ljóst að slík tún verða seint sláttutæk. Bændur hafa kallað eftir heimildum til að verjast ágangi fugla með takmörkuðum veiðum. Þar er við ramman reip að draga, einkum af tilfinningalegum ástæðum. Gæs hefur svo sem verið veidd, en álft er í hugum flestra fugl, sem alls ekki má snerta. Þar verða menn þó að horfa til þess að alger friðun á einum stofni, sem á sér fáa eða enga náttúrulega óvini, getur leitt til mikils ójafnvægis í náttúrunni. Nægir þar að líta til friðunar á ref á stórum svæðum landsins. Hefur slíkt þegar valdið stórskaða á fuglalífi eins og margoft hefur komið fram t.d. á Hornströndum. Má því segja að hugsunarlaus friðun refs í opinberum friðlöndum hafi þegar leitt til stórkostlegs umhverfisslyss og spurning hver ætli að axla ábyrgðina af því. Það er nefnilega fleira en lömb bóndans sem verða refnum að bráð því að á matseðli hans eru ekki síður rjúpur, vaðfuglar, spörfuglar, mávar, æðarfuglar og jafnvel stöku álftarungar sem fullorðnar álftir ná ekki að verja. Þó góðum og gegnum umhverfisverndarsinnum sé kannski nákvæmlega sama um að bændur tapi tugum eða hundruðum lamba í refskjaft á hverju ári, þá verða þeir hinir sömu samt að taka afstöðu til hvar þeir standa gagnvart öðrum lífverum í náttúrunni. Þar hlýtur að verða að reyna að stuðla að jafnvægi. /HKr. Jafnvægi LOKAORÐIN Hvað þýða loftslagsbreytingarnar? Skýrsla nefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem kom út á dögunum er umhugsunarverð. Þar er talið að loftslagsbreytingar muni ógna fæðuöryggi jarðarbúa í framtíðinni. Mat skýrsluhöfunda er að framboð á matvælum muni ekki haldast í hendur við fjölgun jarðarbúa á næstu áratugum. Þetta eru að sjálfsögðu uggvænlegar fréttir sem kalla á viðbrögð alþjóðasamfélagsins án tafar. Þær kalla einnig á það að við Íslendingar metum stöðu okkar. Hvaða áhrif hafa þessar loftslagsbreytingar á okkur? Þau geta sum orðið neikvæð. Sviptingar í veðurfari geta aukist og hingað geta borist meindýr sem við erum ekki vön að þurfa að berjast við, því þau hafa ekki lifað af íslenskan vetur. Fiskigengd getur líka breyst með neikvæðum hætti þó að við höfum aðallega upplifað það á hinn veginn í ljósi þess að makríll varð á fáum árum mikilvægur veiðistofn í íslenskri landhelgi. Það eru líka ýmis önnur áhrif sem geta verið jákvæð vegna hnattrænnar stöðu okkar, sem opna möguleika okkar til að leggja okkar að mörkum við að framleiða meiri mat. Það getur orðið mögulegt að rækta hér landsvæði og nytjajurtir sem ekki var raunhæft áður. Kornrækt hefur til dæmis margfaldast síðustu tvo áratugina, en verulegt svigrúm er enn til að bæta þar í og draga þar með úr þörf fyrir fóður sem flytja þarf hingað um langan veg með tilheyrandi áhrifum á umhverfið. Nýtum orkuna betur Angi af sama meiði er innlend orkuframleiðsla. Þó svo að sú orka sem nú þegar er framleidd hér á landi sé umhverfisvænni en í flestum öðrum löndum þá ættum við ekki að slaka neitt á í því að finna leiðir til að draga enn frekar úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það þýðir meðal annars að nýta meira þá möguleika sem við eigum til framleiðslu á lífrænni orku í stað innflutts jarðefnaeldsneytis og bæta um leið orkunýtinguna í heild. Það er fólgin mikil orka í lífrænum úrgangi, en einnig og ekki síður þurfum við að finna leiðir til að nýta raforku á fleiri sviðum, ekki síst í samgöngum og flutningum. Viðbrögð okkar sem þjóðar þurfa að snúast um hvað við getum lagt að mörkum samfara þessum tíðindum. Þar með talið framlag okkar bænda til aukinnar framleiðslu fóðurs og matvæla á Íslandi. Landbúnaðurinn er hluti af lausn vandans. Takið eftir því að í öllum tillögum um aðgerðir til þess að sporna við þessari óheillavænlegu þróun á heimsvísu, þá er landbúnaðurinn í einu af aðalhlutverkunum. Aukin fæðuframleiðsla er skipulagsmál Íslensk stjórnvöld hljóta að velta fyrir sér hvaða aðgerða er þörf til þess að bregðast við þessari stöðu, bæði í bráð og lengd. Fram hefur komið m.a. í máli sérfræðinga Veðurstofu Íslands að aukin fæðuframleiðsla framtíðar sé skipulagsmál nútíðar. Íslenskir bændur hljóta að túlka það sem svo að við þurfum að passa upp á landbúnaðinn okkar, hann þarf að vera arðsamur, og til að takast á við breytta tíma eiga rannsóknir, ráðgjöf og þróunarstarf að vera í lykilhlutverki. Menntun í búfræði og garðyrkju þarf að taka mið af þessu, það hefur úrslitaáhrif varðandi nýliðun og fjárfestingavilja. Þó að við þekkjum ekki alls kostar þær breytingar sem kunna að verða á ræktunarskilyrðum og tegundavali, virðist ljóst að allar sviðsmyndir krefjast þess að góð ræktunar- og beitilönd séu varðveitt og varin hverskonar eyðingu. Við þekkjum heldur ekki hvernig heimsviðskipti með matvæli munu þróast og hvort það verður með þeim hætti að það skapi frekari útflutningstækifæri fyrir okkur, það er vel líklegt. Þó læðist að sá grunur, að áhugi alþjóðasamfélagsins á að eyða of mikilli orku í að flytja til mat, jafnvel fram og til baka, gæti minnkað. Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga rifjast það upp að hnattræn umhyggja þarf að endurspeglast í aðgerðum heimafyrir. Hvaða stefnu hafa framboð til sveitarstjórna, verðandi handhafar skipulagsvaldsins, til verndunar ræktunarlands, til eflingu landbúnaðar, og til að bæta búsetuskilyrði í sveitum- þar sem matvælaframleiðslan fer fram? Hafa framboðin yfirleitt leitt hugann að þessum málum? Öxlum ábyrgð Mestu máli skiptir að þjóðir heims taki málið alvarlega. Verði ekki brugðist við er lífsbjörg milljarða í verulegri hættu. Þó að spáð sé verr fyrir mörgum öðrum löndum heldur en þeim sem liggja á norðlægum slóðum þá berum við líka ábyrgð. Við þurfum að draga úr útblæstri eins og aðrir. Afleiðingarnar geta orðið neikvæðar hér líka – en við getum þurft að taka á okkur stærri og meiri skyldur en áður við framleiðslu matvæla. Að því þarf að huga, fyrr en síðar. /SSS Vor í lofti Þessar myndir tók Auðunn Birgir Harðarson af Jökulsárlóni við rætur Breiðamerkurjökuls fyrir helgina. Lengst til vinstri sést brúin yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi og hægra megin sést í Breiðamerkurjökul. Samkvæmt nýlegum mæl- ingum er Jökulsárlón dýpsta vatn á Íslandi, en þar eru mest 248 metrar niður á botn. Jökulsárlón er ungt lón og hefur myndast eftir að Breiðamerkurjökull tók að hopa eftir 1933. Áður rann áin beint undan jökli og til sjávar.

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.