Bændablaðið - 16.04.2014, Page 40

Bændablaðið - 16.04.2014, Page 40
40 Bændablaðið | Miðvikudagur 16. apríl 2014 „Við byrjuðum í skógrækt um leið og Vesturlandsskógar hófu sína starfsemi, árið 2000 og ætluðum í upphafi að vera með um 25 ha land undir skógræktina. Það endaði með því að við settum alla fjallshlíðina undir, um 82 ha. Fyrstu árin gróðursettum við ekki mikið, en höfum smám saman bætt í og höfum undanfarin 6 ár gróðursett um 10 þúsund plöntur árlega. Staðan er sú núna að við höfum gróðursett um 100 þúsund plöntur í rúmlega 30 ha lands,“ segir Hraundís Guðmundsdóttir, skógfræðingur og bóndi á Rauðsgili í Borgarfirði. Þar býr hún ásamt sambýlismanni sínum, Birni Oddssyni vélvirkja hjá Norðuráli og tveimur börnum þeirra, Snorra, 19 ára rafvirkjanema í Tækniskólanum í Reykjavík og Heklu, grunnskólanema á fjórtánda ári. Fjölskyldan flutti að Rauðsgili árið 1997 þegar hún keyptu jörðina af móður Björns, en hann er fæddur þar og uppalinn. Hraundís starfa í 50% starfi hjá Vesturlandsskógum en fjölskyldan stundar auk skógræktar einnig býflugnarækt á búinu. Hún segir að allt sem gróðursett hafi verið á jörðinni séu eins til tveggja ára gamla bakkaplöntur, mest fura, en einnig greni, lerki, birki, ösp og reynitré. „Það er mikil vinna við að koma plöntunum niður á vorin og haustin en hér hjálpast allir að við vinnuna, krakkarnir hafa aðstoðað okkur við gróðursetninguna frá því þau voru lítil. Þau byrja á því að vera áburðardreifarar og bera plönturnar, en hafa svo eftir því sem aldurinn færist yfir hjálpað til við gróðursetningu,“ segir Hraundís. Góður lífeyrir fyrir barna- og langömmubörnin Hún segir að styrkur fáist frá ríkinu fyrir hverja plöntu sem sett er niður, en ekki sé um að ræða stórar upphæðir. „Það tekur langan tíma að rækta skóg og krefst mikillar þolinmæði. Arðurinn er ekki mikill fyrstu áratugina en það er svo ótal margt annað sem skógurinn býður upp á annað en timbur, það er t.d. fátt skemmtilegra en að ganga í skóginum, hlusta á fuglasönginn, tína ber og sveppi og njóta náttúrunnar,“ segir Hraundís. Gífurleg verðmæti liggi í skóginum og þau aukist jafnt og þétt eftir því sem hann eldist enda sé viður ávallt eftirsóttur. „Þetta er góður lífeyrir fyrir barnabörnin eða langömmubörnin í framtíðinni,“ segir hún. Fá jólatré úr skóginum og við á grillið Hraundís segir að enn sem komið er sé skógurinn að Rauðsgili ekki stór, en þó séu heimilismenn farnir að ná sér í eigin jólatré í skóginum og þá fáist líka viður á grillið yfir sumarið. Hraundís sótti fyrir fáum árum námskeiðið Grænni skógar sem haldið er á vegum Landbúnaðarháskólans og ætlað skógarbændum og áhugafólki í skógrækt. „Það dugði mér ekki, ég vildi læra meira og skráði mig því í BS nám í skógfræði við Lbhí. Fyrsta árið tók ég nokkur fög því ég var alls ekki viss um að ég myndi ljúka náminu, ætlaði bara að bæta við þekkingu mína. En eftir fyrsta veturinn á Hvanneyri varð ekki aftur snúið, þetta var svo gaman að ég tók þá ákvörðun að einbeita mér að náminu og lauk því í fyrravor, 2013,“ segir hún. Fermingarpeningarnir fóru í kaup á býflugum Auk þess að stunda skógrækt á jörðinni stundar fjölskyldan einnig býflugnarækt. Hraundís segir að þau hafi kynnst býflugnarækt á málfundi sem Framfarafélagið í Borgarfirði hélt í Logalandi veturinn 2010. „Snorri sonur okkar hefur alltaf haft mikinn áhuga fyrir skordýrum og lék sér mikið að ranabjöllum, lifrum og ánamöðkum sem barn. Á sumrin var hann alltaf með fullar lúkur af ýmiss konar skordýrum. Ég spurði hvort hann hefði ekki áhuga á að gerast býflugnabóndi og hann var sko alveg til í það,“ segir Hraundís. „Við keyptum allan búnað sem til þurfti en Snorri borgaði sjálfur fyrir flugurnar, þær kostuðu 50 þúsund krónur og notaði hann fermingarpeningana sína til að greiða fyrir þær.“ Þetta var vorið 2010, Snorri 14 ára gamall og nýfermdur. Uppskera sumarsins var seld á markaði í Borgarfirði og strákurinn fékk allan fermingarpeninginn til baka og vel það. Vaxandi áhugi fyrir býflugnarækt Hraundís segir að þegar fjölskyldan á Rauðsgili hafi byrjað á sinni býflugnarækt hafi félagar í Býflugnafélaginu verið 18 talsins, en eru nú um 80. „Ég hafði aðallega áhuga fyrir að fá glænýtt hreint hunang úr búunum, en Snorri hafði mestan áhuga á að fylgjast með flugunum. Aðrir í fjölskyldunni voru lítið hrifnir af því uppátæki að fylla garðinn af býflugum. Eftir fyrsta sumarið varð ég að kaupa hlífðargalla á Heklu, hún lét sig ekki muna um það að vaða inn í búin óvarin þegar hún var að huga að þeim. Nú erum við öll í þessu fjölskyldan og allir hjálpast að þegar verið er að sækja hunangið.“ Skemmtilegt og gefandi Býflugnarækt segir hún vera mjög skemmtilega og gefandi, „það er að segja ef maður er ekki hræddur við býflugur eins og margir eru,“ segir hún. „Það er gaman að fylgjast með þeim fljúga út og inn úr búinu daginn út og inn að safna hunangi. Þær hafa ekki nokkurn minnsta áhuga á okkur mannfólkinu þegar þær eru að vinna, en verða að sjálfsögðu pirraðar þegar verið er að fara ofan í búin og taka af þeim hunangið.“ Hraundís segir að fjölskyldan sé ávallt í hlífðarfötum þegar búin eru opnuð, „en það kemur fyrir að maður er kærulaus og þá hafa þær af og til náð að stinga okkur, en það er bara fylgifiskur ræktunarinnar,“ segir hún. Hvert bú gefur að meðaltali 10 til 13 kg af hunangi Því fylgir nokkur kostnaður í upphafi að hefja býflugnaræktun, ýmislegt þarf að kaupa, eins og kassa, ramma og hlífðarfatnað auk annars sem fylgir ræktuninni auk þess sem sækja þarf námskeið. Flugurnar eru keyptar sér, en þær eru fluttar inn af Býflugnafélaginu frá Álandseyjum á hverju ári. Hver bú getur að sögn Hraundísar lifað í nokkur ár, það sé þó misjafnt og sum nái að endurnýja sig. Veturinn er að sögn erfiðastur fyrir býflugurnar, þær fara ekki í dvala á veturna heldur halda sig inni í búinu og halda á því hita. Myndist of mikill raki eða ef þær hafa ekki nægt fóður drepst allt búið. „Við tökum af þeim vetrarforðann, sem þær hafa safnað yfir sumarið og gefum þeim þess í stað sykurvatn,“ segir Hraundís. Hvert bú gefur að meðaltali 10 til 13 kíló af hunangi á sumri, en síðasta sumar var að hennar sögn lélegt, uppskeran var rýr vegna veðurfars. „Við höfum notað mikið af hunangi sjálf, en svo höfum við einnig selt svolítið á mörkuðum hér í sveitinn og þá fengið aðeins upp í kostnað,“ segir hún. Hluti jarðarinnar með lífræna vottun Búið á Rauðsgili hefur verið með lífræna vottun frá Túni á hluta jarðarinnar og hafa þaðan verið seldar lífrænt vottaðar jurtir. „Við erum með 1 ha lands þar sem ég sáði og plantaði vallhumli, en hann er aðallega notaður, en einnig hef ég tínt töluvert af villtum jurtum,“ segir Hraundís, en í hópi kaupenda eru grasalæknir og aðilar sem framleiða íslenskar snyrtivörur og nýta jurtir í sínar afurðir. Tveir þeirra koma sjálfir og tína á jörðinni og borga eftir vigt, en eins hefur Hraundís séð um tínsluna og einnig þurrkun jurtanna. /MÞÞ Fjölskyldan á Rauðsgili í Borgarfirði stundar skóg- og býflugnarækt: Sonurinn keypti býflugur fyrir fermingarpeningana sína Hekla með hunang úr búinu. Flugurnar verða að sjálfsögðu pirraðar þegar farið er í búin til að taka hunangið. Grunnskólaneminn Hekla að setja reyk á bý ugurnar til að róa þær niður áður en farið er í búið að sækja hunangið. Hraundís Guðmundsdóttir í bý ugna gallanum.

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.