Bændablaðið - 16.04.2014, Page 44
44 Bændablaðið | Miðvikudagur 16. apríl 2014
Lesendabás
Einkunnar orð Sigurjóns á
Álafossi, þegar hann kynnti
ullarvörur verksmiðjunnar á
síðustu öld, voru: „Eignist þú
góðan grip þá mundu hvar þú
fékkst hann.“
Þeir sem komnir eru á aldur,
muna vel hvar og hvernig þeir
fengu hlýju fötin sín. Þar með
talin silkimjúku þel nærfötin, sem
héldu á manni hita, þó ekki væru
þá komin vatnsheld yfirhafnarföt á
hvert mannsbarn, né hlífðarflíkur
við hæfi og það yljar manni
ennþá, minningin um svellþæfðu
þelvettlingana næst hendi innanundir
grófari togvettlingum sem tóku við
snjó og bleytu í vetrarkuldanum og
hrintu frá svo einangrun þelsins naut
sín, sama átti við um sokkana og
íleppana í heimagerðu skinnskónum.
Þeir forðuðu mörgum frá kali á tám
og fingrum fyrri ára og alda.
Því rifja ég þetta upp nú, að
mér sýnist sem „öldin önnur“ sé að
gleyma sér í ofgnótt gerviefnanna,
og eigi erfitt með að meta og muna
upphaf og eðli ekta vöru. Og komin
langt frá því að skilja og meta
eðliskosti íslensku ullarinnar, ef
hún er rétt meðhöndluð til fjölnota
úrvinnslu. Þar eigum við námu
tækifæra og ónýtt verðmæti.
Það er mér mikið umhugsunarefni
hvernig komið er þróun þessara mála
og hvert stefnir, ef áfram verður
haldið á sömu braut. Svo langt er
nú gengið með þeirri meðferð og
hirðingu sem tíðkast hefur síðustu
áratugi á íslensku sauðkindinni,
rúningu og reifi jafnt og úrvinnslu
ullar, að frágangssök er að þola
viðkomu hennar nær sér en utan yfir
margföldu undirlagi annarra mýkri
fata. Lopapeysan, sem nú um tíma
hefur verið helsta og verðmætasta
söluvaran, vegna góðrar hönnunar
og tískusveiflu, stingur svo með
sínum margniðurbútuðu, stífu tog
og fýldings hárum, að mann svíður
og klæjar undan svo óþolandi
er. Engu síður þá sem ólust upp
í þelskyrtunum næst sér fram á
fullorðinsár og leið vel með það.
Er þetta eðlilegt.? Hvað er breytt.?
Hvers vegna.? Viljum við hafa þetta
svona og jafnvel versnandi.? Eða
viljum við staldra við og hugsa
málið.?
Til þess að glöggva sig á stöðunni
og gera sér grein fyrir hvað veldur
breytingunni, verður að byrja hjá
kindinni sjálfri, fóðrun hennar,
húsvist, rúningstíma og meðferð
reyfisins. Eðlislægir eiginleikar
sauðkindarinnar eru að skipta um
reyfi á vorin. Þá eru að koma skil
milli nýju ullarinnar og þeirrar gömlu
með því að togið á nýja reyfinu er
farið að vaxa út í þelið á því eldra
og lyfta því frá skrokknum. Náttúran
hefur sín ráð til að skilja á milli kulda
og hitatímabils árstíðanna og losa
dýrin við vetrar dúðurnar, þegar
hlýnar af sumri. Þegar maðurinn fór
að temja dýrin í sínar þarfir, fann
hann ráð til að hirða af þeim arðinn
og gera að sýnum nytjum. Hann fór
því að rýja kindina á vorin, út frá
þessum eiginleikum og eðli og fékk
með því heillegt reyfi sem saman
stóð af fíngerðum, þéttum hármassa
innst, þelinu, með grófari og gisnari
hárum yst, toginu, og endunum á
toghárum næsta reyfis, fýldingnum,
sem klippt var í þegar rúið var en
stendur svo eins og illhærur inn úr
þeli reyfisins.
Formæður okkar þvoðu vel þessi
reyfi, aðskildu síðan fíngerða þelið
frá með því að taka (togið) ofan af
sem kallað var, þ.e. draga toglokkana
út úr reyfinu og illhærurnar innanúr,
þartil aðeins var silkimjúkt þelið eftir.
Togið var kembt sér og haft aðallega
í ytri fatnað, eða spunnið örfínt í þráð
til ýmissa nota. En þelið var kembt,
spunnið, tvinnað og þrinnað. Allt
eftir til hvers átti að nota, í prjónles
eða vefnað, ígangsflíkur, undirlök
eða rúmteppi. Til allra þessara nota
var litafjölbreytni íslenska fjárins
uppspretta margra listaverka í
samsetningu og meðhöndlun.
En vélaöldin yfirtók vandvirkni
og listfengi mannshandarinnar í
meðferð þessa hráefnis, ullarinnar, og
sauðfjárbændur fóru að leggja meiri
áherslu á kynbætur til kjötframleiðslu
og frjósemi. Ullarmiklar, lagðprúðar
kindur hlutu ekki náð fyrir augum
ráðgefandi stefnu, til jafns við
lágfættu holdmassa skrokkana
og þessarar áráttu að kreista út úr
hverri á eins mörg lömb og tæknin
gæti þar fyrir komið, án tillits til
að ærin hefur aðeins tvo spena frá
náttúrunnar hendi og er ætlað að
stikla fótfrá um fjöll og víðerni. En
stuttfætta holdmassanum er hætt
við að velta um hrygg og verða
afvelta á sléttlendi heimagæslunnar
og mikils þarf við um sauðburð við
að reyna að koma aukalömbum í
fóstur milli mæðra til uppvaxtar,
því reynslan sýnir að hverri á hentar
best náttúrulögmálið með 1-2 lömb á
spena og gefur með því mestan arð,
þó einstaka kind geti skilað þremur
jafngóðum dilkum að hausti. Einnig
þetta er umhugsunarefni sem vert er
að horfa á frá fleiri hliðum.
Með breyttum búskaparháttum
og húsvist frá hausti til vors, er svo
farið að haust og vetrarrýja féð. Og
þar með gjörbreyta ullinni, reyfið
sem samanstendur af tvennskonar
misgrófum og mislöngum hárum
fær þá aldrei að vaxa á sinn eðlilega
hátt. Ásetnings haustlömbin eru rúin
um leið og tekið er á hús að hausti.
Sú ull sem á þeim spratt yfir sumarið
er fyrst og fremst toghárin, því
þelhárin vaxa mest og þéttast þegar
kólna fer af hausti og vetri. Þarna er
því klippt í miðju þelhári þar sem
engin ullarskil eru komin önnur.
Og aftur eru þessar kindur klipptar
seinnipart vetrar, þegar „snoðið“,
(þelið sem klippt var í), er farið að
lyftast frá skepnunni, við vöxt togs
á næsta árs reyfi. Ærnar eru rúnar
um miðjan vetur, áður en þelhárin
eru fullvaxin eða fýldingurinn farinn
að mynda ullarskil. Þar er því einnig
saxað í miðju þelhári sem ódrýgir
enn mýkri hluta reyfisins. Síðan er
öll þessi ull tætt og táin saman svo
úr verður massi margniður bútaðra
stuttra hára, sem hanga varla saman
þegar teygja þarf lopann við spuna,
toghár og illhærur í yfirgnæfandi
meirihluti, af svo stuttri lengd, stinga
eins og nálaroddar þegar komið
er í flík, eftir þessa meðhöndlun.
Lopapeysutískan hefur um tíma
bjargað að nokkru, heiðri íslensku
ullarinnar. En þegar grannt er
skoðað, getur það orðið skammgóður
vermir, því tískan breytist ört og
heimurinn líka, svo enginn veit
nema stutt sé í að aðstæður útheimti
önnur not mýkri gerðar fata. Eins
og meðferð ullar er háttað nú, er
hún varla samkeppnisfær við til
dæmis ástralska og norska ull að
mýkt og gæðum. Og fyrr en varir
hefur þjóðin gleymt hverju hún á líf
sitt að launa, í gegnum aldir hafíss
og harðinda fortíðar, og langt fram
á síðustu öld. En það er vandratað
meðalhófið í meðferð og húsvist
fólks og fénaðar. Að mörgu þarf
gæta, vega og meta svo vel fari.
Það eru gömul sannindi og ný.
Gerðir fjárhúsa, vinnuaðstaða og
innistöðugjöf eða meiri útivist með
tilliti til ullargæða og meðferðar
meiri og betri afurða, jafnvel án
meiri tilkostnaðar, er vel þess virði
að leiða hugann að,
Með þessum skrifum vil ég
aðeins minna á að “enginn veit hvað
átt hefur fyrr en misst hefur.“ Og það
gæti verið stutt í það að langsóttara
yrði að rifja upp þekkingu og
vinnuaðferðir genginna kynslóða, ef
áhugi og aðstæður gæfu tilefni til að
heimfæra þær upp á komandi tíma.
Og svo er líka umhugsunarefni nú á
krossgötum bændaþjóðfélagsgerðar
og borgríkjasamfélags þessarar
þjóðar, hvernig framtíðar samfélagi
og landsnytjum verður háttað til
gæfu og gengis á komandi tímum.
Eins og er virðist þar allt vera laust í
reipunum, í hershöndum skammtíma
sjónarmiða óprúttinna sérhagsmuna
og valdabrölts. Sem skeytir engu um
líðan fólks né meðferð og framtíð
lands. Þetta er háskalegt viðhorf og
ekki að undra þó upp vakni ýmsar
áleitnar spurningar.
Maðurinn og sauðkindin hafa
átt samleið á þessari eyju frá
landnámstíð og deilt saman kjörum
í blíðu og stríðu. Það má til sanns
vegar færa að hún sé ein þeirra
hollvætta sem gott er að búa með og
vert að gera vel til í bráð og lengd.
Skrifað í byrjun Góu 2014.
Guðríður B. Helgadóttir.
Ullin
Guðríður B. Helgadóttir.
Eru 10–14 ára krakkar í
þéttbýli hættir að fara í sveit á
sumrin? Hvað veldur ef svo er?
Eru það krakkarnir sem vilja
ekki fara eða eru ábúendur
til sveita búnir að gefast upp
á krakkagrislingunum af
malbikinu?
Það er mjög slæmt að mínu
mati ef sú er raunin að færri og
færri börn fari í sveit á sumrin og
það þarf í raun ekkert að fjölyrða
um það.
Ef ástæðan er sú að ábúendur til
sveita vilja ekki fóstra bæjarbörn
á sumrin vegna þess að þau
séu frekar fyrir en til gagns og
hugsanlega að meðlagsgreiðsla
vegna fyrirhafnar, fæðis og
uppihalds sé það lág að hún
jaðri við að vera ósanngjörn, þá
þarf hreinlega að skoða aðkomu
ríkis og bæjarfélaga að málinu
því sveitavistin mun skila betri
og heilbrigðari þegnum út í
þjóðfélagið þegar börnin vaxa úr
grasi.
Þetta er jarðbundin skoðun
mín.
Ef börnin vilja ekki fara
vandast auðvitað málið, man
að sjálfur var ég sendur þrisvar
sinnum í sveit til óskyldra aðila
og entist hvergi út sumarið, var
þó ætíð hjá úrvalsfólki.
Mikið vandamál getur orðið
með börn í þéttbýli sem eru
vaxin upp úr leikskólum en eru
of ung til að fá að vinna venjulega
sumarvinnu og eru oftast ein að
þvæla með lykil um hálsinn ef
foreldrarnir vinna bæði úti.
Auðvitað hefur tækni til
sumarverka í sveitum tekið
stórstígum breytingum og vélar
orðnar flóknari og dýrari en áður
þannig að ekki eru barna meðfæri.
Þess vegna er e.t.v. raunin orðin
sú í dag að taka barn eða ungling í
sveit þýðir oftar en ekki að þau eru
tekin í fóstur tímabundið líkt og
dagmamma nema þarna er orðið
ærið starf fósturmömmu og pabba
því barnið dvelur þarna um daga
og nætur í nokkrar vikur samfleytt.
Ef viðkomandi barn er heppið
þá teygist úr dvölinni og barnið
verður lengur en eitt sumar á sama
bænum, stálpast í ungling og er þá
vonandi farið að vinna fyrir sér og
meðlagsgreiðslan félli sjálfkrafa
niður.
Ég er ekki jafn spenntur
fyrir því að sumardvöl barna
og unglinga verði atvinnuvegur
til sveita þ.e. að stofnuð séu
barnaheimili með fjölda barna í
vistun án hefðbundins búskapar
því þá læra börnin ekkert um lífið
og tilurðina.
Ég er að tala um venjulega
sveitadvöl þar sem einu til tveim
börnum er bætt inn í fjölskyldu til
sveita tímabundið.
Það er í raun eðlilegt að ríki og
sveitarfélög komi að málum með
endurgreiðslu dvalargjalds barna
í sveit líkt og barnaheimilisgjöld
eða dagmömmugjöld yngri barna.
Því vil ég segja, það er þess
virði að greiða dágóða upphæð
með börnum og unglingum sem
eru svo heppin að komast að í sveit
á sumrin.
Því miður þótti ekki á tímabili
„cool“ af hálfu unglinga að fara í
sveit, þótti beinlínis hallærislegt
og „púkó“ að dvelja í sveit
sumarlangt og ekki annað en
neyðarbrauð því þeir sem voru
svo „heppnir“ að eigin mati að fá
sumarvinnu við afgreiðslu eða á
lager hjá Hagkaup eða Bónus þóttu
hinir vel settu, en var það svo??
Mín skoðun er sú að
„sveitaunglingurinn“ var eftir
sumarið mun betur settur bæði
vitsmunalega og fjárhagslega, svo
ekki sé nú talað um þroskastöðu
hans.
Og við bændur og búalið vil ég
segja þetta, takið að ykkur börn til
sumardvalar ef þið mögulega getið
og sannið til, þau munu þegar þau
vaxa úr grasi neyta afurða ykkar
og endurgjalda ykkur þannig
dvölina svo um munar.
Síðan munu þau halda úti góðu
umtali um bændur og skilja frekar
hvar skóinn kreppir að þegar á þarf
að halda.
Í raun er ekki til betri
markaðssetning en það að fóstra
börn og unglinga úr þéttbýli.
Þau alla vega fitja síður upp á
trýnið þegar landbúnaðarvörur og
landbúnaðarmál eru til umræðu.
Kristján Gunnarsson
Ráðgjafi hjá Bústólpa.
Unglingar af
malbikinu
Bændablaðið
Smáauglýsingar 56-30-300
Hafa áhrif um land allt!