Skírnir - 01.04.1992, Side 69
SKÍRNIR „ERU NÚ TVEIR KOSTIR OG ER HVORGI GÓÐUR“ 63
nokkrum hlutum sögunnar, og þó ekki síður vegna hins að í
sumu virðist vera ónákvæmlega eða beinlínis rangt farið með
lagaákvæði og lagaformála. Um þetta segir Einar Ólafur Sveins-
son í formála sínum: „Áhugi hans á lögum er sýnilega meiri en
þekkingin. Ekkert bendir á, að hann hafi verið lögfróður frá
fornu fari.“6 Þetta er þeim mun merkilegra ef haft er í huga að
höfundurinn, sem var augljóslega víðmenntaður maður, hafði
greiðan aðgang að ritum innlendum sem erlendum, mundi síðasta
skeið þjóðveldisins að því er ætla má og hefur áreiðanlega lifað
þau ár er menn voru að endurskoða og umskapa lög landsins.
Gert er ráð fyrir að Njálssaga sé saman tekin á árunum eftir að
Jónsbók var í lög leidd en um hana og þó ekki síður um Járnsíðu
frá 1271 hljóta að hafa orðið miklar umræður.
Við hlið „lögfræðinnar“ í Njálssögu má segja að áhugamenn
hafi löngum helst gert gagnrýnar athugasemdir við sögulokin.
Mörgum hefur þótt sem þau séu of langdregin og of rislág miðað
við hápunkta verksins. Reyndar hefur svipað einnig komið fram
um aðrar Islendingasögur.
Hér verður að rifja örfá efnisatriði Njálssögu upp. I allri fjöl-
breytni sinni mætti segja að Njálssaga skiptist þannig: Upphaf,
aðdragandi, Gunnarssaga, stígandi í átökum og atburðarás, saga
Höskulds; spennan eykst, hámark óskapa í Njálsbrennu; eftirmál
þeirra og hefnd Kára, lok í ljúfri löð. Þessi efnisskipan, en hér er
aðeins stiklað á fáum atriðum, getur ekki verið ófyrirsynju í slíku
stórverki enda bendir flest til þess að höfundur hafi gert sér far
um heildarskipan efnisins, sbr. þríleikinn svonefnda í verkinu
o.fl. Gera verður ráð fyrir því að efnisskipanin og sögulokin séu
mikilsverð atriði til skilnings á verkinu í heild. Einar Ólafur
Sveinsson hefur komist svo að orði að höfundur hafi séð fyrir sér
síðustu orðin þegar hann skráði þau fyrstu, og Bjarni Guðnason
segir í grein um Njálssögu: „Almennt talað er heildarsýn og
formskynjun höfundarins einstök“.7
Rök má leiða að því að sögulokin skipti mjög miklu máli í
Njálssögu, og verður hér fyrst vikið að þeim samhengis vegna.
6 Brennu-Njáls saga, bls. LV.
7 KLNM XII, bls. 320 (þýtt hér).