Skírnir - 01.04.1992, Síða 74
68
JÓN SIGURÐSSON
SKÍRNIR
geta átt rætur að rekja til hugmynda um „gortna hermanninn"
(;miles gloriosus) þótt ekki verði frekara fjallað um það hér.13
En er það hins vegar ekki fráleitt að Njálssaga sé á einhvern
hátt sérstaklega kristilegt verk? Er ekki óheimilt að telja að slíkur
boðskapur hafi sérstaklega vakað fyrir höfundi? Þetta skiptir máli
vegna þess sem þegar hefur verið sagt, og skulu nú nefnd nokkur
frekari dæmi. Hér er ekki aðeins um það að ræða að boðskapur í
verkinu sé eitthvert „ytra einkenni" eða sérstakt fyrirbrigði sem
hægt er að einangra frá verkinu að öðru leyti. Hann er þvert á
móti eigind skáldskaparins, samgróinn eðli listarinnar, sá eldur
sem gefur orðunum líf og kraft, andinn sem blæs merkingu í mál-
ið og er í augum höfundar virði þess að saman sé tekin löng og
mikil saga. Á sama hátt verður því ekki haldið fram hér að höf-
undur Njálssögu hafi verið einhver sérstakur áróðursmeistari á
vegum kirkjunnar, heldur er fyrst og fremst athugað hvort hugar-
heimurinn og lífsviðhorfin sem birtast í sögunni eru mótuð af
kristnum hugmyndum.14
Kristin lífsskoðun og hugarheimur geta birst með ýmsu móti í
skáldverki. Tvennt er þó skýrast: Annars vegar getur verið um
það að ræða að í verkinu komi fram skoðanir, orðalag, umsagnir,
frásagnir o.s.frv. sem beinlínis og greinilega verða raktar til kristi-
legra heimilda eða kenninga eða til kirkjulegs lærdóms og fræða,
til dæmisagna og fræðsluefnis, til kversins o.þ.u.l. Þegar hér er
notað orðið „greinilega“ er því ekki hafnað þar með að ef til vill
þurfi yfirgripsmikla þekkingu til að taka eftir slíkum dæmum.
Hins vegar getur verið um það að ræða að verkið í heild og án
sérstakra ummæla beri með sér kristna afstöðu til viðfangsefnis-
ins. I því efni skiptir þetta mestu: Kristnin lítur á mannlífið sem
„fallna" tilveru, syndugt líf sem sífellt hneigist til „heiðinna"
13 Sjá um sambærilegt efni, Nanna Ólafsdóttir: „Nokkur menningarsöguleg
dæmi úr Njálu". Skírnir. 151. árg., 1977, bls. 59-72. Einnig eru mjög athygli-
verðar ábendingar í formála Sverris Tómassonar og Ornólfs Thorssonar: „Um
Islendinga sögur“. lslendinga sögur ogþœttir. Annað bindi. Svart á hvítu, Rvík
1987. bls. vii-liii. Sbr. „Miles gloriosus“, gamanleikur eftir Plautus (d. 184
f.Kr.) en þessi manngerð Plautusar hafði mikil áhrif á 14. öld og síðar, á
commedia dell'arte, Shakespeare (Falstaff) o.fl.
14 Um sama efni, en með ólíkum hætti, sjá Peter Hallberg: „Njála miðaldahelgi-
saga?“ Andvari. Nýr flokkur XV, 1973, bls. 60-69.