Skírnir - 01.04.1992, Page 78
72
JÓN SIGURÐSSON
SKÍRNIR
dauði hans „martyrium". í dauðanum segir hann þessi orð: „Guð
hjálpi mér en fyrirgefi yður“.22 Athygliverð er niðurstaða Her-
manns Pálssonar um þessa frásögn: „Mér er ekki kunnugt um
nokkurn annan atburð í íslenzkum fornbókmenntum þar sem
líkt hagar til og um víg Höskulds. Ástæðulaust er að gera ráð fyr-
ir arfsögnum sem kunni að liggja hér að baki, og er því eðlilegast
að hugsa sér að höfundur hafi hlítt útlendri fyrirmynd."23)
Orð Hildigunnar, ekkju Höskulds, við Flosa föðurbróður
sinn eru mjög merkileg frá því sjónarmiði sem hér ræðir þegar
hún eggjar Flosa blóðugri eggjan eftir Höskuld. Hún kastar blóð-
ugri skikkjunni yfir Flosa sem hafði gefið Höskuldi skikkjuna en
Höskuldur bar hana í dauðanum. Hún segir: „Skýt eg því til guðs
og góðra manna að ég særi þig fyrir alla krafta Krists þíns og fyrir
manndóm og karlmennsku þína að þú hefnir allra sára þeirra er
hann hafði á sér dauðum, eða heit hvers manns níðingur ella.“24
Þessi orð Hildigunnar eru skólabókardæmi um miðaldaguðfræði:
„Guð og góðir menn“ er náttúrlega alkunnugt orðalag. Vísvitandi
var ýmsum þáttum haldið eftir af eldri þjóðtrú og siðum og hin
katólska kristni var einmitt „almenn“ (catholica) meðal annars í
umburðarlyndi sínu gagnvart ýmsu því sem var átrúnaður al-
mennings, t.d. örlagatrú, karlmennsku og samjöfnun ættarskyldu
og guðlegs réttlætis. Og samkvæmt réttlætinu skal nú telja sárin
og endurgjalda hvert um sig. I nafni Krists skal nú hefnda leitað. í
nafni hans skal réttur dómur felldur yfir drápi Höskulds og í
nafni hans skal þessum dómi framfylgt. Hér er hefndarhugtakið
blandið áhrifum réttlætishugtaksins og dómshugtaksins úr
kristninni. Flosi sprettur upp, kallar Hildigunni „forað“ og segir:
„og eru köld kvenna ráð“ og það hljómar víða um Njálssögu af
þeim orðum.25 Reyndar vill svo til að sjálfur Guðmundur góði
biskup biðst hefnda með svipuðum hætti sem Hildigunnur:
„Hefn þú nú, Drottinn, eigi má vesalingur minn“ og á eftir segir
22 Brennu-Njáls saga, bls. 281.
23 Uppruni Njálu og hugmyndir, bls. 72 og áfr.
24 Brennu-Njáls saga, bls. 291.
25 Hermann Pálsson hefur bent á orðalagið um „köld kvenna ráð“ í trúarlegum
ritum. Sjá Hermann Pálsson: Leyndarmál Laxdcelu., Rvík 1986, bls. 158.