Skírnir - 01.04.1992, Page 79
SKÍRNIR „ERU NÚ TVEIR KOSTIR OG ER HVORGI GÓÐUR'
73
höfundur Guðmundarsögu Arasonar: „Sýnist mér svo sem Guð
hafi heyrt bæn Guðmundar biskups bæði þá og endranær".26
Þegar Flosi býst til ferðar til Bergþórshvols segir í sögunni að
hann „lét snemma veita sér tíðir.“27 Og þegar hann kemur á leið-
arenda með menn sína ávarpar hann liðið: „Eru nú tveir kostir og
er hvorgi góður: sá annar að hverfa frá, og er það vor bani, en
hinn annar að bera að eld og brenna þá inni, og er það þó stór á-
byrgð fyrir guði er vér erum kristnir sjálfir."28 Flosi leggur með
öðrum orðum sambærilegan dóm á verk sín og fyrirætlanir sem
Gunnar hafði gert og áður er nefnt. Reyndar er það fastur liður í
miðaldabókmenntum Evrópu að foringi gefur táknræna, siðferði-
lega eða trúarlega yfirlýsingu í þann mund er bardagi hefst og
einnig er þá víða getið drauma og fyrirboða.
Þegar ósköpin dynja yfir hughreystir Njáll fólk sitt með þess-
um orðum: „Verðið vel við og mælið eigi æðru því að él eitt mun
vera en þó skyldi langt til annars slíks.“ Hér grípur Njáll til há-
klerklegrar kenningar til að hughreysta heimafólk sitt andspænis
dauðanum. Hermann Pálsson orðar það svo: „Njáll þurfti ekki að
sækja til Rómverja hinna fornu í því skyni að nema listina að
deyja. Hann lætur sér nægja kristin fyrirmæli."29 Siðfræði mið-
aldakirkjunnar er honum svo eðlileg að hann miðar við katólska
„kasúistík“ á þessari örlagastundu: Fyrir syndir okkar verðum
við að taka dómi og refsingu þessa heims eða annars; þó skyldi
langt að bíða annars slíks éls ef við tökum refsinguna út nú þegar.
Svo mikið sem við höfum brotið - nákvæmlega jafnmikið verð-
um við að endurgjalda þessa heims eða annars, en ef við gjöldum
nú þá er það búið og gert -. Síðar þróaðist þessi „kasúistík“ (mat
á hverju einstöku atviki synda) þannig að nákvæmum útreikningi
og misjöfnu mati, jafnvel fjárhagslegu, varð komið á einstaka
flokka synda o.þ.h. og þessir útreikningar allir urðu ein ástæða
26 Guðmundar saga Arasonar. 85. kafli. Biskupa sögur. Annað bindi. Hólabisk-
upar. Guðni Jónsson bjó til prentunar. íslendingasagnaútgáfan, Rvík 1953,
bls. 350—351.26. Brennu-Njáls saga, bls. 322.
27 Brennu-Njáls saga, bls. 322.
28 Brennu-Njáls saga, bls. 328 og áfr.
29 Uppruni Njálu og hugmyndir, bls. 52.