Skírnir - 01.04.1992, Page 90
84
JÓN SIGURÐSSON
SKÍRNIR
hætti.50 í yfirlitsriti um menningu miðalda segir W.T.H. Jackson
m.a.:
Auðvitað höfum við rétt fyrir okkur þegar við gerum ráð fyrir því að
sérhver rithöfundur í Vestur-Evrópu á miðöldum hafi verið kristinn
(nema ef væri ókunnir höfundar elstu germanskra sagna- og kvæðaefna).
Við getum ekki gert ráð fyrir því að allir þessir kristnu menn hafi verið
innilega trúhneigðir, meinlætamenn eða kórrétt-trúaðir með öllu.
Kristnir menn voru alveg eins sundurleit hjörð sem nú og kórrétta trú
var ekki auðvelt að finna á tímum þegar trúarkenningar og jafnvel
helgisiðir voru miklu óljósar skilgreind en þau hafa verið eftir að kirkju-
þinginu í Trento lauk. Sérstaklega virðist tólfta öldin hafa verið frjálsleg
- allt að því veraldlega sinnuð - og þá virðist sem nægilegt hafi verið að
fylgja ytri helgisiðum að formi til. Þrátt fyrir þetta er líklegt að kristnin
hafi á öllum skeiðum miðaldanna skipt meira máli en á nokkru skeiði
síðan vegna þess að hún ríkti alveg yfir fræðslu, bóklestri og hugsunar-
hætti. 51
Heimsmyndin og lífssýnin sem birtast í Njálssögu eru alveg
kristnar og í henni er heiðninni markaður sá bás sem heiðni ber í
kristinni lífssýn yfirleitt. Grimmdarverk, manndráp og fjand-
skapur Sturlungaaldar eru „guðlaus, óguðleg, heiðin“ verk og at-
hæfi, en þau eru það fyrst og fremst ef á þau er litið frá kristilegu
sjónarmiði og þau eru metin samkvæmt kristnum mælistikum.
Njálssaga er mikið listaverk og hún verður ekki skilgreind í eitt
skipti fyrir öll, en óhætt er að segja að þetta snilldarverk feli það
meðal annars í sér að atferli og atburðir eru metnir samkvæmt
kristilegri mælistiku.
50 Sjá Badel, bls. 35.
51 Jackson: Medieval Literature, bls. 17 og áfr. Kirkjuþingið í Trento stóð 1545-
1563. - í grein minni, „Hrafnkatla: sinnaskipti eða samfélagsskipan“, er rætt
um svipuð viðfangsefni og þessi ritsmíð fjallar um og þar eru fleiri sambærileg
dæmi nefnd sem ber að sama brunni. Tímarit Máls og menningar, 3-4. hefti
1975, bls. 357 og áfr.