Skírnir - 01.04.1992, Síða 98
92
GUDRUN LANGE
SKÍRNIR
„Sálin vill sjá guðdóminn að svo miklu leyti sem það er leyft. .. Og hún
vill sjá sjálfa sig uþpljómaða, fulla af skilningsljósi; eða öllu heldur, hún
vill sjálf verða hreint ljós, fleyg og frjáls, verða að guði“ (VI,9).13
Sálinni er eðlislægt að leita upp á við en til þess að losna úr
„fangelsinu", gröfinni, þarf hún að hreinsa sig af hinu óæðra, lík-
amanum. Þetta gerist á margan hátt, með listiðkun (t.d. tónlist),
ást, speki, sjálfsaga, dygðum og heilögu líferni (m.a. þjáningum,
meinlæti). Ágústínus kirkjufaðir, sem hafði eins og svo margir
aðrir verið nýplatónisti áður en hann tók kristni, orðar þetta
þannig:
Ur því að njóta ber þess sannleika, sem lifir óumbreytanlega, og af því að
í honum stjórnar hinn þríeini guð, höfundur og skapari alheimsins, öllu
því sem hann hefur skapað, verður að hreinsa sálina til þess að hún geti
séð þetta ljós og sameinast því. Við getum litið á þessa hreinsun sem eins
konar gönguferð eða siglingu til föðurlandsins, en aðeins í vissum skiln-
ingi, því til hans, sem er alls staðar nálægur, komumst við ekki í rúmi
heldur með ástundun góðs og siðsamlegs lífernis.14
Kenningar Plótínusar og annarra nýplatónista voru þýddar,
skýrðar og aðlagaðar á ýmsan hátt. Þær bárust til heimkynna
trúbadúra með tveimur menningarstraumum, hinum grísk-róm-
verska annars vegar og arabísk-gyðinglega hins vegar. A. J. Deno-
my, sem rannsakað hefur þetta mál, sýnir hvar fyrrnefnd ástar-
hugmynd og platónsk einkenni koma fram í arabískri heimspeki
og dulspeki.15 Fyrir utan Al-Kindi (d. 873) og Al-Farabi (d. 950)
nefnir hann einkum Avicenna (þ.e. Ibn Sina, d. 1037), sem skrif-
13 Ágúst H. Bjarnason 1953:205.
14 De doctrina christiana I, 10. CCSL XXXII:12. „Quapropter, cum illa ueritate
perfruendum sit, quae incommutabiliter uiuit, et in ea trinitas deus, auctor et
conditor uniuersitatis, rebus, quas condidit, consulat, purgandus est animus,
ut et perspicere illam lucem ualeat, et inhaerere perspectae. Quam pur-
gationem quasi ambulationem quandam et quasi nauigationem ad patriam esse
arbitremur. Non enim ad eum, qui ubique praesens est, locis mouemur, sed
bono studio bonisque moribus." - Geta má þess hér að De doctrina christiana
hefur verið til í Viðeyjarklaustri 1397 (Diplomatarium Islandicum IV,111),
sbr. t.d. Olmer 1902:7,59.
15 Denomy 1944-1953.