Skírnir - 01.04.1992, Page 99
SKÍRNIR
ANDLEG ÁST
93
aði sérstaka ritgerð um ást. Avicenna talar í fimmta kafla verks
síns um þá ást sem eingöngu felst í sjón og snertingu án kynmaka
og telur hana bera vott um göfgi og siðfágun.16 Allt fellur þetta
vel að hugmyndum trúbadúra um fin’amors, hina hreinu ást. Þrá
sálarinnar að sameinast hinu æðra og hreinsun hennar samræmist
amour courtois, ástarþránni til konu sem gerir elskhuganum kleift
að vaxa að mannkostum eða með öðrum orðum „das Ewig-
Weibliche zieht uns hinan“ (Goethe/Faust).17
Bent hefur verið á að nýplatónsk heimspeki og fyrrnefndur
’Udhrite-ástarkveðskapur hafi runnið saman hjá arabísk-spænska
skáldinu og guðfræðingnum Ibn Hazm, sem þannig hafi verið
upphafsmaður hugmyndarinnar um amour courtois á Spáni (Al-
Andalus) tveimur öldum á undan skáldunum í Suður-Frakk-
landi.18 Ibn Hazm skrifaði árið 1022 bók (Tauq al-hamáma, þ.e.
Hálshand dúfunnar),19 sem fjallar um ástina í óbundnu og
bundnu máli, eins konar Vita nova (Dante) Andalúsíu. Þar er
kenningin um hið guðdómlega ástarsamband færð yfir á mann-
lega ást. Ibn Hazm segir að ást sé aðdráttarafl milli aðskilinna
sálna, sem einhvern tíma áður hafi verið sameinaðar í öðrum
heimi. Sameining sálna sé mikilvægari en kynmök þó að hið fyrra
útiloki ekki hið síðara. I augum hans skiptir líkamleg fegurð ekki
eins miklu máli og andlegt samræmi milli elskenda.20
16 Avicenna: A Treatise on Love. V. „On the Love of Those Who Are Noble-
Minded and Young for External Beauty", 221-222.
17 Sjá í þessu sambandi einnig kaflann „The Background of Ideas“ hjá Dronke
1965:57-97.
18 Sjá t.d. Monroe 1974:15-21.
19 Ibn Hazm: The Ring of the Dove. Trans. A. J. Arberry. London 1953. - Ibn
Hazm Alandalusi: Das Halsband der Taube. Von der Liebe und den Lie-
benden. Aus dem arabischen Urtext ubertragen von Max Weisweiler. Frank-
furt am Main 1961.
20 Sbr. hinn skemmtilega samanburð Nykls (1946:371; þýðing mín) á Ibn Hazm
og Óvidíusi: „ [. . .] Ibn Hazm leggur áherslu á andlega hlið ástarinnar [. . .]
Óvidíus er munaðarseggur, gáfaður spjátrungur, sem líkt og Don Juan montar
sig af hæfileikum sínum til að vinna ástir kvenna [sbr. Óðin!]; Ibn Hazm er
tilfinninganæmur, leitandi að andlegu samneyti, jafnvel þótt um líkamlegt
samband sé að ræða, og tekur hið fyrra fram yfir hið síðara. Með öðrum orð-
um, hann varðveitir hinn upprunalega anda platónisma og Súfl [arabískrar
dulspeki], meðan Óvidíus gerir ástina aðallega að hreyfiafli útsmoginna og