Skírnir - 01.04.1992, Síða 119
SKÍRNIR
SKÁLDIÐ OG KONAN
113
spennu í textanum. í honum felst tvenns konar orðræða sem fer
ekki saman. Fyrsti, annar, fjórði og sjöundi hluti ljóðabálksins
falla að röklegri byggingu hins klassíska ljóðs en það gera hins
vegar hvorki hinn langi þriðji hluti, né fimmti og sjötti hluti. Þeir
eru tilfinningaþrungnar stemningar sem brjóta hina röklegu
byggingu niður. I Hulduljóðum verður þetta að togstreitu á milli
röklegrar orðræðu (logos) annars vegar og tilfinningalegrar orð-
ræðu (pathos) hins vegar.
Undarlegt sambandsleysi ríkir á milli aðalpersóna Hulduljóða,
Eggerts og Huldu, og það stingur í stúf við ítrekaðar yfirlýsingar
um ást þeirra. Jafnframt er tilfinningaþrunginn stíll ljóðabálksins
svo óhófskenndur að það skilur hann ekki aðeins frá öðrum ljóð-
um Jónasar heldur einnig frá rómantískri ljóðlist annarra ís-
lenskra skálda. Dramatísk stílbrögð ríkja í Hulduljóðum; ávörp,
áköll, upphrópanir, hástemmdar yfirlýsingar svo sem „sólfagra
mey!“, „Njörður! Þór! og Freyr!“, „Eggert!“, „Hulda!“, „Ó,
Eggert!“, „Ó, Hulda!“, „Ó, Hulda kær“ o.s.frv. Ljóðið miðlar
þannig bæði fjarlægð eða sambandsleysi og sterkum ástríðum.
Allt þetta eru fagurfræðilegir „gallar“ ef ætlast er til að ljóða-
bálkurinn sé listræn heild sem miðlar göfgun og samræmi. Gefi
túlkandi sér hins vegar þær forsendur að öll mikil bókmennta-
verk byggist á átökum við form verður óróleiki Hulduljóða afar
áhugaverður.
II.
Hulduljóð hefjast á þremur inngangserindum að hætti klassisism-
ans. Klassísk mælskulist var svo sjálfsögð framsetning ræðu hjá
íslenskum menntamönnum þessa tíma að hún einkennir nánast
öll skrif þeirra: ljóð, ritgerðir og jafnvel sendibréf. I klassískri
mælskulist er efni skipað niður í inngang (exordium), málavöxtu
(narratio), rökstuðning (argumentatio) með eða á móti og svo
loks niðurstöðu (peroratio).b
6 Sjá Jtfrgen Fafner: Retorik. Klassisk & moderne, Universitetsforlaget, Koben-
havn, 1977, bls. 19. Sjá einnig grein mína: „Skáldið eina“, Tímarit Máls og
menningar, 2. hefti 1989, bls. 179.