Skírnir - 01.04.1992, Page 122
116
DAGNÝ KRISTJÁNSDÓTTIR
SKÍRNIR
III.
Þó að ljóðmælanda Hulduljóba sé mikið niðri fyrir í öðrum hlut-
anum, sé bitur, þá er orðræða hans engu að síður rökleg, opinber
og setningaskipan fjórða erindis minnir á kansellístíl. Annar hlut-
inn gæti verið tekinn úr heimsósómakvæði sem ort voru á átj-
ándu öld, m.a. af Eggerti Ólafssyni. í þriðja hlutanum hefst hins
vegar tilfinningaþrunginn kafli, pathos tekur við af logos, ástin
tekur við af því opinbera. Skilin eru mörkuð með ávarpi: „Sól-
fagra mey!“
Ávarpið er mikið notað í mælskulist Hulduljóða. Ávarp heitir
„apostrophe" á grísku en það þýðir „frásnúningur" þ.e.a.s. sá sem
talar snýr sér frá hópnum og ávarpar aðeins einn útvalinn.10
Hann snýr sér sem sagt frá lesendum að einhverjum sem er ekki
nærverandi, ekki lifandi, ekki mannlegur en er gerður allt þetta
með ávarpinu. í ávarpinu felst þannig alltaf persónugerving. Það
„ég“ sem talar í ljóðinu kemur sér upp „þú-i“, en sambandið á
milli „mín“ og „þín“, sem þannig er til orðið, biður um hið ó-
mögulega. Skáldið miðlar þrá sinni eftir að heyra rödd þessa við-
fangs („objekts"), þráir að viðfangið gefi sér aftur það líf sem því
er gefið í textanum eins og gerist hér:
Hulda! Hví grípa hendur þínar ljósu
um hendur mér og hví svo viknar þú?
Ávarpið hefur ekki verið vinsælt stílbragð í ljóðum eftir róm-
antíska tímabilið og það hefur fremur óþægileg áhrif á lesendur
10 Bandaríski bókmenntafræðingurinn Barbara Johnson skilgreinir „ávarp“
þannig: „Ávarpið [. . .] er beint tiltal þess sem talar í fyrstu persónu til fyrir-
bæris sem er fjarverandi, dáið eða ómennskt. [. . .] Hið fjarverandi, dauða eða
ómennska fyrirbæri er ávarpað og þar með gert nærverandi, lifandi, því gefin
mannleg mynd eða eiginleikar. Ávarpið er þannig nokkurs konar búktal, þar
sem sá sem talar gefur því sem talað er til rödd, líf og mannleg form og breytir
þögn þess í mállausa svörun.“ Barbara Johnson: „Apostrophe, Animation, and
Abortion", Diacritics, Spring 1986, bls. 29-30.