Skírnir - 01.04.1992, Page 124
118
DAGNÝ KRISTJÁNSDÓTTIR
SKÍRNIR
„foldarblómi“. Auk þess er hann tilfinningaríkur og grætur:
„svipast um með tárum“.12
Tilfinninganæmi og fegurðarskyn Eggerts kemur þó best fram
í þeim texta sem lagður er honum í munn, þ.e. fjórða hluta
Hulduljóða. Halldór Laxness segir:
Innilegri sálmar hafa ekki verið ortir til guða meðal vor, hvorki í heiðni
né kristni, en hin einföldu stef Hulduljóða um síli og sóleyar: Smávinir
fagrir og Það var hann Eggert Ólafsson. [. . .] Það er sagt að heilagur
Frans hafi haldið ræður yfir fuglum, en má ég spyrja, hver hefur túlkað
með uppgerðarlausari viðkvæmni en Jónas þá ást mannshjartans sem
ekki er aðeins í eðli sínu viðkvæmust heldur djúptækust, ástina til móð-
urjarðarinnar og þess sem þar grær, ég segi „uppgerðarlausari“, ekki ó-
minnugur þess að allt form felur í sér nokkra uppgerð. Og hver bað al-
föður í heitari bænarrómi að annast blómin sem vaxa heima? Bauð
nokkur sóleynni góða nótt með viðlíka kurteisi?13
Halldór Laxness er „ekki óminnugur þess að allt form felur í sér
nokkra uppgerð" og það vissi Jónas Hallgrímsson líka vel.
IV.
Kaflinn „Smávinir fagrir", hlutverk Eggert Ólafssonar í Huldu-
Ijóbum, getur staðið sem fullkomið smáljóð út af fyrir sig ef not-
aðir eru þeir listrænu mælikvarðar sem minnst var á í upphafi,
þ.e. beðið um heild í samræmi. Nýr bragarháttur kemur hér til
sögu, styttri ljóðlínur eða fjórir bragliðir, hraðari taktur og ein-
göngu karlrím. Erindin eru átta línur en í þremur fyrstu erindun-
um verða efnisskil um mitt erindið þannig að léttleiki ferskeytl-
unnar svífur yfir vötnum.
12 Karlmenn gráta í rómantískum ljóðum enda var grátur karlmannsins tákn þess
að hann gæti lifað sig inn í líf og þjáningar annarra, deilt tilfinningum með
öðrum. Sbr. Alan Richardson: „Romanticism and the Colonization of the
Feminine" í Romanticism and Feminism, ritstj. Anne K. Mellor, Indiana Uni-
versity Press, 1988, bls. 16.
13 Halldór Laxness: „Um Jónas Hallgrímsson", Af skáldum, Bókaútgáfa Menn-
ingarsjóðs, Rvk. 1972, bls. 27-29.