Skírnir - 01.04.1992, Page 127
SKÍRNIR
SKÁLDIÐ OG KONAN
121
nú skal úr hlíðum hárra Tinnufjalla
svo huldumeyjar þægan vinni koss,
óbrotinn söngur yfir dalinn líða
eins og úr holti spóaröddin þýða.
Það er engin furða að skáldið dreymi um að fara á fjörurnar
við Huldu; hún er „sólfögur", með „bleikan lokk“ eða ljóshærð
og „fagurt lokkasafn“ og bjart „lokkahöfuð". En þessar hálfkær-
ingslegu kossavonir annars erindis taka á sig alvarlegri mynd
strax í öðrum hluta ljóðsins. Þar byrjar Hulda að verða annað og
meira en viðfang í ljóðinu. I sjötta erindi fáum við að vita að
Hulda vill ekki heyra „háðungarorð“ og til að vernda hana skipt-
ir skáldið um umræðuefni. Konan „sem ekki er til“ er byrjuð að
hafa bein áhrif á gang mála.
Fræg eða illræmd er setning Jacques Lacan: „það er ekkert til
sem við getum kallað konuna". Auðvitað vissi Lacan að konur
eru til en hann er að tala um konu-na, „tegundarheitið", hug-
myndina. Hann segir að „konan“ eða hið kvenlega sé alltaf bund-
ið neitun í tungumálinu, „hún“ sé það sem „hann“ sé ekki, hún sé
það sem hann vantar.15 Þeir karlmenn sem mótað hafa vísindi
okkar um manninn hafa ætlað konum eiginleika sem karlmenn
vilja ekki hafa eða geta ekki haft, frá því djöfullega til þess
heilaga. Þannig hefur „kona-n“ í skáldskap karlmanna oft verið
fulltrúi skáldskaparins, sannleikans, dulvitundarinnar, jafnvel
sjálft hið endanlega tákn. Sameining við slíka konu myndi gera
karlmanninn heilsteyptan og hamingjusaman, eða það telur hann.
Firring hans í sinni eigin táknrænu reglu stafar af því að hann
vantar „konuna". Á þann hátt verður „konan" trygging fyrir því
að ótvíræð merking sé til. Þessa blekkingu halda menn í og halda
þannig frá sér vitundinni um þá vöntun sem er tilvistarleg for-
senda þeirra. Karl og kona geta aldrei „sameinast“ segir Lacan
háðskur og um rómantískar ástir hefur hann þetta að segja:
15 Jacqueline Rose: „Introduction 11“ í Jacques Lacan & The École Freudienne:
Feminine Sexuality, ritstj. Juliet Mitchell og Jacqueline Rose, Macmillan Press
1982, bls. 44-50.