Skírnir - 01.04.1992, Síða 137
SKÍRNIR
HULDULJÓÐ
131
11.
Tárperlur bjartar titra þér í augum,
tindra þær gegnum fagurt lokkasafn,
sólfagra mey! því sjónar þinnar baugum
séður er aldrei kappi þessum jafn.
Þú elskar, Hulda! Eggert foldarblóma,
ættjarðar minnar stoð, og frænda sóma.
12.
Ó, Eggert! hvursu er þinn gangur fagur!
útivist þín er vorðin löng og hörð;
kær er mér, faðir! komu þinnar dagur;
hann kyssir, Hulda! þína fósturjörð;
sólfagra mey! hann svipast um með tárum,
saltdrifin hetja, stiginn upp af bárum.
13.
Þú elskar hann, þess ann eg honum glaður,
ástin er rík, og þú ert hennar dís;
hér vil eg sitja, hér er okkar staður,
ó, Hulda! þar til sól úr ægi rís.
Hallaðu lokkahöfði bjarta þínu,
mín Hulda kær! að vinarbrjósti mínu.
14.
Hann svipast um, nú sefur allt í landi,
svæft hefir móðir börnin stór og smá,
fífil í haga, hrafn á klettabandi,
hraustan á dúni, veikan fjölum á;
hann svipast um í svölum næturvindi
um sund og völl að háum fjallatindi.
15.
Hallaðu lokkahöfði bjarta þínu
að hjarta mér sem nú er glatt og traust,
hallaðu þér nú hægt að brjósti mínu;
hann hefir ekki starfað notalaust!
seint og að vonum svo fær góður njóta
sín og þess alls er vann hann oss til bóta.
16.
Hann líður yfir ljósan jarðargróða,
litfögur blóm úr værum næturblund
smálíta upp að gleðja skáldið góða,
gleymir hann öðru’ og skoðar þau um stund;
nú hittir vinur vin á grænu engi.
„Velkominn, Eggert! dvelstu með oss lengi.“
[IV]
17.
Eggert:
„Smávinir fagrir, foldarskart,
fífill í haga, rauð og blá
brekkusóley! vér mættum margt
muna hvurt öðru’ að segja frá;
prýði þér lengi landið það
sem lifandi guð hefir fundið stað
ástarsælan, því ástin hans
alls staðar fyllir þarfir manns.
18.
Vissi ég áður voruð þér,
vallarstjörnur um breiða grund,
fegurstu leiðarljósin mér,
lék eg að yður marga stund;
nú hef eg sjóinn séð um hríð
og sílalætin smá og tíð,
munurinn raunar enginn er
því allt um lífið vitni ber.
19.
Faðir og vinur alls sem er!
annastu þennan græna reit;
blessaðu, faðir! blómin hér,
blessaðu þau í hvurri sveit.
Vesalings sóley! sérðu mig,
sofðu nú vært og byrgðu þig;
hægur er dúr á daggarnótt,
dreymi þig ljósið, sofðu rótt.
20.
Smávinir fagrir, foldarskart,
finn eg yður öll í haganum enn;
veitt hefir Fróni mikið og margt
miskunnar faðir, en blindir menn
meta það aldrei eins og ber,
unna því lítt sem fagurt er;
telja sér lítinn yndisarð
að annast blómgaðan jurtagarð."