Skírnir - 01.04.1992, Síða 149
SKÍRNIR
ANNUS MIRABILIS
143
Útdráttur úr bréfi Siinckenbergs kaupmanns til stjórnar íslands-
verzlunarinnar, dagsett í Holmens Havn á Islandi 24. júlí 1783:
í Skaftárjökli (ísfjall), sem er í Skaftafellssýslu, kom upp jarðeldur á
hvítasunnudag sem svo hefur breiðzt út, að á að nafni Skaftá þornaði
upp, en grjóturð kom í staðinn.
Tvær kirkjur og átta stórir bóndabæir hafa brunnið og breytzt í
grjóthóla, en bændur hafa mátt flýja af 15 bæjum vegna nálægðar eldsins.
Samkvæmt frásögnum sjónarvotta flæðir eldurinn yfir jörðina líkt og
vatn, og kveikir í öllu sem hann kemst í snertingu við, þannig að allt
brennur, vatn, grjót og jarðvegur, og breytist í eldflaum sem á stundum
breiðist út með skelfilegum hraða, en fer sér stundum mjög hægt. Eftir
nýjustu fréttum vex hann enn og breiðir úr sér, þannig að það svæði sem
eldur þessi nú þekur með vissu, er sjö mílna breitt og fimmtán á lengd;
og þó má, án minnsta vafa gera ráð fyrir því að eldurinn sé miklu
víðáttumeiri en nokkur getur vitað, því loftið er svo þrungið af
saltpétursmistri, reyk, ösku og sandi, að því er líkast sem yfir landinu
grúfi myrkur sem síðan viku eftir hvítasunnu hefur gersamlega rænt sól-
ina birtu sinni, þannig að hún hefur líkzt glóandi klumpi þegar grillt
hefur í hana gegnum hroðalega þykkt loftið við sólarupprás eða sólarlag.
Þessi dimma móða varnar mönnum að komast að því hvort ekki spúi
fleiri jöklar eldi, eða hversu víðáttumikið það svæði er sem undirlagt er
af þessari hræðilegu Almættis furðu, sem menn fylgjast með af mestu
athygli, er nú má sjá stærstu hraun og háa kletta þar sem áður voru
flatlendir hagar.
Auk eldsuppkomunnar í Skaftafellssýslu ber einnig að nefna það
furðulega fyrirbæri sem er hið nýuppkomna land við Fuglasker, sem
ennþá kvað gjósa og brenna á degi hverjum, og menn hafa víða haft af
greinileg merki í vikri sem rekið hefur á land, svo menn geta eigi
óttalaust horft til þeirra afleiðinga og breytinga sem jarðeldur þessi
veldur, með því menn vita eigi hve lengi Almættið lætur hann við vara.
Hvarvetna þar sem til er vitað, er grasvöxtur mjög rýr, og talið stafa
af þeim fíngerða brennisteini, sem úr mistrinu fellur, og veldur því sums
staðar að grasið visnar beinlínis. Nyt kúnna er ekki nema fjórðungur
þess sem venjulegt er, og séu skoðaðar á þeim granirnar sést gulur litur
sem sennilega stafar af því saltpéturs- og brennisteinskennda ryki sem
situr á grasinu og einnig veldur því að gripirnir fitna hvorki né mjólka.
Þegar hagur landsins er þannig skoðaður í heild sinni, hjálpar allt til að
sýna hið hryggilegasta og aumasta ástand.
Þrungi og raki loftsins hefur einnig hin hörmulegustu áhrif á
verzlunina, með tilliti til fiskveiðanna. Ekkert bendir til þess að í ár takist
að þurrka skreiðina; hversu vel sem að verki verður staðið mun ekki
takast að forða henni frá skemmdum.
Þá mikilvægu athugasemd ber að gera, að af fréttum að ráða eru þess
engin merki að þessi hræðilegu eldgos hafi borið með sér verulegt vatn