Skírnir - 01.04.1992, Page 169
SKÍRNIR
DREKI
163
vígvöllunum frá manni sínum. Hún hristi póstkassann og kíkti í
rifurnar en hann var tómur eins og venjulega. Þau gengu inn.
Hún hafði ekki setið iðjulaus meðan Alexander Ivanovitsj var
burtu. Unglegt andlit hennar var rjótt og virtist enn unglegra en
ella þrátt fyrir horaðan háls og margar nýjar hrukkur. Hún taldi
upp afrek sín sigri hrósandi: hún hafði farið út með ruslaföturnar
og barið úr þeim stokkfreðið sorp, tekið til í herberginu, hengt
teppi fyrir gluggann neðanverðan svo að ekki blési eins inn, kom-
ið með diskagrindina úr eldhúsinu og sett hana við hliðina á ofn-
inum, þvegið þvott, fínmalað salt og - þetta tilkynnti hún sér-
staklega hátíðlega - fundið inni í skáp pakka af kaffibæti sem
reyndist alveg sérstaklega ljúffengur.
Hún jós súpunni á tvo diska og setti þann fyllri fyrir Alex-
ander Ivanovitsj.
„Ég borðaði nokkrar skeiðar meðan ég hrærði í. Ég var svo
svöng að ég gat varla stillt mig um að éta allt“ sagði hún og brosti
skömmustulega.
Alexander Ivanovitsj reyndi að malda í móinn, en hún varð
reið og hann tók fyllri diskinn. Súpan var ljósbrún, límkennd
með loftbólum og skildi eftir mjölkennt slím á skeiðinni. Hún var
brennheit, sölt og ísúr á bragðið. Alexander Ivanovitsj borðaði
ekki með matskeið, heldur ábætisskeið til að treina sér máltíðina
sem lengst. Þegar hann var búinn sleikti hann disk og skeið í krók
og kring, tíndi brauðmylsnuna upp af borðinu og át. Þá var
ekkert eftir í þetta sinn og máltíð lokið. Nú var bara að bíða eftir
brauðbita og súpu kvöldsins.
„Farðu á sjúkrahúsið, þú þarft að láta framlengja sjúkravott-
orðið þitt“, sagði systir hans, „en ég ætla að skreppa og hjálpa
Dímu að jarða Maríu Nikolajevu, hún liggur enn í herberginu hjá
honum.“
„Vertu ekki að því, þú bara ofreynir þig."
„Mig langar að hjálpa honum. Hún var góð manneskja. Díma
ræður ekki við það sjálfur og það er enginn til að hjálpa honum.
Hann stendur varla á fótunum. Kannski er það henni að þakka að
hann er á lífi. Þegar ég mætti henni síðast hélt ég að hún væri
gengin af göflunum. Hún sagðist vera með dauða rottu „handa