Skírnir - 01.04.1992, Síða 197
SKÍRNIR Á SAGNFRÆÐIN AÐ ÞJÓNA ÞJÓÐFÉLAGINU?
191
4
Við getum reynt að skilja setninguna „Sagnfræðin á að þjóna
þjóðfélaginu og ganga inn í það“ sem fullyrðingu um þá kröfu
sem við hljótum, frá sjónarhóli okkar sem einstaklinga, að gera til
sagnfræðinnar. Við segjum þá: Vissulega er markmið sagnfræð-
innar sannleiksleit. En séð frá sjónarhóli mínum (ég er einstak-
lingur í ákveðinni stöðu innan þjóðfélagsins utan við sagnfræð-
ina), er þetta markmið alveg merkingarlaust. Eg hlýt því að krefj-
ast þess, að sagnfræðin taki að sér slíkt hlutverk að hún verði lif-
andi þáttur í tilveru minni sem einstaklings innan þjóðfélagsins.
Hér ber þó allt að sama brunni. Ef við krefjumst þess að sagn-
fræði rannsaki fortíðina til að renna stoðum undir og styrkja for-
sendur núverandi þjóðfélags og/eða til að gera lífið bærilegt, þá
krefjumst við af henni nokkurs, sem er andstætt gagnrýnni hugs-
un, andstætt efanum, andstætt sannleiksleitinni. Við setjum henni
ytra markmið, sem ekki er dregið í efa.
Hvaða kröfu getum við þá gert til sagnfræðinnar, sem er í
samræmi við inntak hennar, sannleiksleitina?
Við getum krafist þess að sagnfræði rannsaki fortíðina og
dragi þannig upp myndir af öðrum þjóðfélögum, öðrum viðhorf-
um og menningarheimum, sem við getum svo lært af, dáðst að,
eða hneykslast á. Þekkingin sem sagnfræðin veitir okkur um þessi
ólíku þjóðfélög, menningarheima og viðhorf, gerir okkur betur í
stakk búin til að gagnrýna og draga í efa það þjóðfélag, þá menn-
ingu og þau viðhorf sem við sjálf lifum við. Við getum krafist
þess að hún auðveldi okkur að sjá utan frá, ef svo má segja; geri
dóma okkar um eigið þjóðfélag og önnur síður háða okkar eigin
stöðu. Þessi krafa er eðlileg, séð frá sjónarhóli einstaklingsins, og
hún er í fullu samræmi við markmið sagnfræðinnar jafnt sem
annarra fræða.
5
Einstaklingurinn er ávallt bundinn af hagsmunum sínum og
stöðu innan þjóðfélagsins. Hann sér heiminn frá sjónarhóli sem