Skírnir - 01.04.1992, Side 205
SKÍRNIR
VERÐI LJÓS!
199
ingarinnar", hvað svo sem átt er við með því hugtaki, enda vísa íslenskir
upplýsingarmenn stundum beint í hugmyndir hreyfingarinnar í skrifum
sínum.10 Væri annað óhugsandi, þar sem menn eins og Magnús Stephen-
sen, Hannes Finnsson biskup og Jón Eiríksson sóttu menntun sína til
Danmerkur einmitt á þeim tíma sem upplýsingin var í tísku og hlaut því
hugmyndaheimur þeirra og hugsanaferli að mótast af hinum alþjóðlegu
hræringum. En umfram slíkt almennt andrúmsloft er fátt augljóst eða
öruggt um streymi hugmyndanna yfir Atlantshafið, sem sést best ef við
athugum sérstaklega kenningar og viðhorf íslenskra upplýsingarmanna
til einstakra mála sem voru miðlæg í boðskap þeirra.
Refsing
„Mildun refsinga á síðustu 200 árum er alþekkt fyrirbæri í lagasögunni,"
skrifar franski heimspekingurinn Michel Foucault í tímamótaverki sínu
Surveiller etpunir (Eftirlit og hegningJ.* 11 Samkvæmt Foucault hefur oft-
ast verið fjallað um þessa þróun „sem mælanlegt fyrirbæri: minni
grimmd, minni sársauki, meiri gæska, meiri virðing, meiri ‘mannúð’“.12
Þessari túlkun hafnar Foucault algerlega og leggur áherslu á að refsispeki
upplýsingarmanna hafi alls ekki miðað að linun refsinga, heldur að
breytingu á markmiðum þeirra og réttlætingu. Fyrir miðja 18. öld voru
refsingar eins konar leiksýning, eða helgisiður (ritúal), þar sem konungur
opinberaði vald sitt og dýrð. Sérhver glæpur var árás á persónu konungs-
ins, sem handhafa fullveldisins, og með refsingunni endurreisti hann
virðingu sína. Annað einkenni refsinga á fyrri tíð, segir Foucault, var að
þeim var beint gegn líkama hins brotlega en ekki sál; refsingin var hefnd
yfirvaldsins og var ætlað að setja mark á líkama hins brotlega. Líkamleg-
ar refsingar, eins og pyntingar og hýðingar, voru því eðlilegur og rök-
réttur hluti réttarkerfisins, en alls ekki úrelt arfleið grimmdar miðalda.
Með nýrri réttarspeki, sem fram kom á tímum upplýsingarinnar, var
hrundið af stað bylgju breytinga sem enn hefur ekki riðið yfir að fullu.
10 Þetta á ekki hvað síst við um Magnús Stephensen, sbr. „Pro Memoría, til Allra
Myrkra-manna og Lióss-hatara á Islandi", prentuð í grein Inga Sigurðssonar,
„Upplýsingin og áhrif hennar á íslandi,” í Upplýsingin á íslandi, bls. 29, og
bút úr Eftirmœlum átjándu aldar í Upplýsing og saga, bls. 101-118.
11 Erfitt er að þýða nafn bókarinnar á íslensku, bæði vegna þess að sögnin sur-
veiller á sér ekki beina samsvörun í íslensku og vegna þess að hér er um tvö
sagnorð að ræða í nafnhætti en ekki nafnorð. Sbr. formála Alans Sheridans að
enskri þýðingu verksins, Discipline and Punish: The Birth of the Prison (New
York: Vintage Books 1979).
12 M. Foucault, Surveiller et punir: Naissance de la prison (París: Gaillimard
1975), bls. 21-22.