Skírnir - 01.04.1992, Page 208
202
GUÐMUNDUR HÁLFDANARSON
SKÍRNIR
Ólafssonar sér til skemmtunar og andlegrar uppbyggingar og fyllist þar
með starfsáhuga og vilja til að vinna sjálfu sér og þjóðinni gagn.18 Nú
mætti í fljótu bragði álíta þennan áhuga forystusveitar íslensku upplýs-
ingarinnar á þankagangi og lestrarefni alþýðunnar nokkuð róttæka, af
því að uppfræðsla almennings var alls ekki efst í huga allra upplýsingar-
manna. Franskir upplýsingarpostular töldu til dæmis hina eiginlegu upp-
lýsingu aðeins eiga erindi til lítils hóps yfirstéttar, á meðan allur almenn-
ingur hlyti að sinna brauðstriti fyrst og fremst og hefði þar með lítið
svigrúm til andlegra íhugana.19 „Með orðinu „alþýða“ skil ég“, skrifaði
Voltaire t.d. eitt sinn í bréfi til vinar síns, „fólk sem hefur aðeins hendur
sínar til að framfleyta sér. Ég dreg í efa að þessi stétt þegna muni
nokkurn tfma hafa næði eða hæfileika til að menntast; þeir myndu deyja
úr hungri áður en þeir næðu að verða heimspekingar [philosophes]. Mér
virðist óhjákvæmilegt að alltaf verði til óupplýstir vesalingar.“20
Viðhorf sem þessi voru ekki algeng meðal íslenskra upplýsingar-
manna. Eitt helsta áhugamál þeirra var ritun og útgáfa nytsamlegra rita,
sem ætluð voru til lestrar á venjulegum bændaheimilum, fyrir vinnufólk
jafnt og húsbændur. Markið var að ná til almennings og að brjóta þannig
að nokkru leyti niður þá múra sem aðskildu stéttir í samfélaginu. Hér á
landi var fjarlægð á milli stétta reyndar minni en almennt gerðist í álf-
unni, því að hreyfing á milli þjóðfélagshópa var alls ekki óþekkt á ís-
landi, eins og Magnús Stephensen benti á í Ræðum Hjálmars á Bjargi.21
En um margt líktist íslensk fræðslustefna því sem þekktist meðal síðupp-
lýsingarmanna, m.a. í Frakklandi. Á þeim tíma beindu postular ljóssins
sjónum sínum í auknum mæli að puplinum, le peuple, í þeirri von að
honum mætti snúa til betri vegar og skynsamlegri hegðunar. Hér gengu
búauðgismenn í broddi fylkingar, enda strönduðu tilraunir þeirra til
„endurbóta" á markaðskerfi korns á 7. áratug 18. aldar á óvilja almenn-
ings við að beygja sig undir laissez-faire kenningar upplýstu hagfræðing-
anna. Hin menntaða yfirstétt gerði sér sem sagt grein fyrir að „umbóta-
18 Ármann á Alþingi \ (1829), bls. 112 og áfram. Hugmyndir Stefáns Þórarins-
sonar amtmanns um útbreiðslu lestraráhuga á íslandi eru dæmigerð um sömu
viðhorf, sjá Upplýsingin á Islandi, bls. 157-158.
19 Gott yfirlit yfir menntastefnu upplýsingarmanna og viðhorf þeirra til alþýð-
unnar er að finna í Harvey Chisick, The Limits of Reform in the Enlighten-
ment: Attitudes toward the Education of the Lower Classes in Eighteenth-
Century France (Princeton: Princeton University Press 1981) og Harry C.
Payne, The Philosophes and the People (New Haven: Yale University Press
1976).
20 Tilv. tekin úr H.C. Payne, The Philosophes and the People, bls. 96.
21 Rœdur Hjálmars á Bjargi fyrir Bornum sínum um Fremd, kosti og annmarka
allra Stétta, og um þeirra almennustu Gjald og Tekjur (Viðey: Gefið út á
kostnað höfundar 1820).