Skírnir - 01.04.1992, Page 209
SKÍRNIR
VERÐI LJÓS!
203
viðleitni" hennar var ómöguleg nema með skilningi og samvinnu undir-
stéttanna, og því þurfti að boða almenningi guðspjall upplýsingarinnar.
En í raun var um greinilega samsvörun að ræða á milli hugmynda
franskrar upplýsingar um alþýðumenntun og framfaraviðleitni íslenskra
■menntamanna á 18. og 19. öld. Fyrir báðum var tilgangurinn með upp-
lýsingu alþýðunnar að breyta verkmenningu og hugsunarhætti hennar
þannig að hún sætti sig við og uppfyllti þau markmið sem upplýst yfir-
stétt setti henni.
Menntastefna evrópskrar upplýsingar lagði um margt grunninn að
því kerfi menntunar sem er við lýði á Vesturlöndum enn þann dag í dag,
þó svo að vitanlega hafi margt breyst bæði í fræðilegri umræðu um
skólamál og félagslegu umhverfi menntunar frá lokum 18. aldar. I meg-
indráttum gekk upplýst menntun útfrá því að uppalendur hefðu þá
skyldu að temja börnin með umhyggjusemi og styrkum aga og venja þau
á skynsamlega hegðun og viðhorf (Uppeldi á upplýsingaröld, 10-17). Al-
þýðumenntun hafði sama takmark, hvort sem hún fór fram í sérstökum
stofnunum eða á heimilum, þ.e. að gera almenning betur hæfan til að
taka „skynsama" afstöðu til veruleikans, um leið og henni var hvorki
ætlað að riðla þjóðskipulaginu né taka sérstakt tillit til vilja eða viðhorfa
almennra borgara. Menntun alþýðu er í þessum skilningi ekki gagnvirk
samræða menningarheima, heldur trúboð. Boðunin gengur útfrá algild-
um sannindum sem koma að ofan, eða skal vera eins konar andleg vakn-
ing alþýðunnar á forsendum menntastéttarinnar. Víst var menntastefnu
upplýsingarinnar ætlað að bæta kjör almennings með því að kenna skyn-
samlega nýtingu auðlindanna, en um leið var rík áhersla lögð á þá stað-
reynd að fyrir miklum meirihluta fólks lá ekkert annað en líkamlegt strit.
Menningin skyldi aftur á móti vera séreign þeirra sem höfðu næði og
þekkingu til að sinna andlegri iðju og fagurfræðilegan smekk til að fram-
leiða „góða“ list. I stað fánýts rímnakveðskapar og innihaldslausra
skemmtana átti bændafólk að nærast á upplýsandi lestrarefni um búskap
sem hvatti það til að slá aldrei slöku við vinnu sína; þ.e.a.s. með upplýstri
bókmenningu reyndu „framfarasinnar“ að endurskilgreina menninguna
og ná þannig tökum á hinni viðurkenndu list.22 Um leið var reynt að út-
rýma munnlegum alþýðukveðskap og sagnalist, af því að allt sem leiddi
huga alþýðunnar frá hagnýtri atvinnu og almennri siðsemi væri af hinu
illa.
22 Sbr. Loftur Guttormsson, „Bókmenning á upplýsingaröld. Upplýsing í stríði
við alþýðumenningu." I Gefid og þegið. Afmœlisrit til beiðurs Brodda Jóhann-
essyni sjötugum (Reykjavík: Iðunn 1987), bls. 247-289. Tilraunir til að stofn-
anabinda læknisþjónustu á seinni hluta 18. og fyrri hluta 19. aldar bera um
margt svipmót menningarbaráttu upplýsingarmannanna; sjá Uppeldi á upplýs-
ingaröld, bls. 32-36.