Skírnir - 01.04.1992, Page 211
SKÍRNIR
VERÐI LJÓS!
205
yrðir höfundurinn, en tilraunir þeirra „voru lagaðar eptir innlendri
reynslu, en ekki útlendum vísindum einum saman“.26
Félagslegt vald
Upplýsingin var um margt róttækt endurmat á samfélagsskipan 18. ald-
ar. I Frakklandi var forræði kirkjunnar hafnað og ritskoðun. veraldlegra
yfirvalda ögrað með ýmsu móti, auk þess sem sumir forsvarsmenn stefn-
unnar drógu í efa helstu grundvallaratriði stjórnkerfisins. Á íslandi virð-
ast upplýsingarmenn hins vegar hafa verið heldur hægfara í öllu því sem
viðvék uppbyggingu íslensks þjóðfélags, og þá allt frá efstu stigum þess
niður til hinna neðstu. Fáir gerðu t.d. nokkra athugasemd við einveldið
fyrr en komið var fram um daga Fjölnismanna, eða þar til stjórnarformið
var hvort eð er rúið öllu trausti í móðurlandinu Danmörku. Það sem
meira var, helstu forkólfar upplýsingarinnar á Islandi voru eitilharðir
stuðningsmenn strangs húsaga og banns gegn lausamennsku, og gildir
það jafnt um síðupplýsingarmanninn Tómas Sæmundsson og frum-
kvöðulinn Eggert Ólafsson. Magnús Stephensen gekk jafnvel svo langt
að róma þrískiptingu stétta á Islandi, þar sem veraldlegir og andlegir
embættismenn mynduðu fyrstu og aðra stétt en bændur hina þriðju, m.a.
vegna þess að hann taldi slíka flokkun líkjast því sem tíðkaðist í lénskerfi
Evrópu.27
Nú hefur afstaða íslenskra upplýsingarmanna stundum verið skýrð
(og afsökuð) með því að strangar ritskoðunarreglur hafi ekki leyft þeim
annað en að mæra einveldið, þó svo að innst inni hafi þeir haft á því
skömm.28 Erfitt er þó að fullyrða nokkuð um slíkar kenningar og virðast
þær reyndar gera ráð fyrir að gagnrýni íslenskrar upplýsingar hafi hvorki
rist mjög djúpt né að forsprakkar hennar hafi verið gæddir miklu hug-
rekki. Ef nánar er að gáð sést líka að ákveðið samhengi er í viðhorfum
upplýsingarmannanna til valds í samfélaginu og ganga þær hugmyndir
sem rauður þráður í gegnum rit þeirra um samfélagsmál. Þetta kemur
skýrt fram í því sem Ingi Sigurðsson segir um Jón Espólín, en hann „var
jákvæður gangvart þjóðhöfðingjum, sem að hans mati voru stjórnsamir
26 „Hvað á að gjöra og hvað verður gjört Islandi til framfara?" Höldur 1 (1861),
bls. 12-16.
27 Sbr. Guðmund Hálfdanarson, „fslensk þjóðfélagsþróun á 19. öld.“ Grein sem
mun birtast í safnritinu Islensk þjóðfélagsþróun, 1880-1990.
28 Sjá t.d. umfjöllun Nönnu Ólafsdóttur um Baldvin Einarsson í Baldvin Einars-
son og þjóðmálastarf hans (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag 1961),
bls. 104-112.