Skírnir - 01.04.1992, Side 214
208
GUÐMUNDUR HÁLFDANARSON
SKÍRNIR
jafnt um ísland sem önnur lönd. Ekki bætir úr skák þegar upplýsingin
rennur saman við eldri kennisetningar, eins og virðist hafa gerst með
kameralismann í Þýskalandi (Upplýsingin á Islandi, 44-46), en þá er oft
ómögulegt að greina með ákveðnum hætti á milli einstakra hugmynda-
strauma. Það þarf því ekki að koma á óvart að fræðimönnum hættir til
að ofnota jafn óljós hugtök og „anda upplýsingarinnar“ þegar rætt er um
uppruna hugmynda og áhugaefni einstakra höfunda á „upplýsingaröld".
I þessu sambandi virðist auðveldast að eiga við tind hins andlega
píramíða, þ.e. að merkja og afmarka upplýsingaráhrif í opinberri orð-
ræðu yfirstéttarinnar. Nýjar kenningar um uppeldi barna bárust t.d. ó-
trúlega hratt til Islands á 18. öld, þó svo að áhrif þeirra hafi sjaldan náð
langt útfyrir lærð rit spekinganna (Uppeldi á upplýsingaröld, 20-21). Er-
lendar hugmyndir um gang sögunnar settu einnig greinilegt mark á
söguskilning og söguskýringar íslenskra andans manna á upplýsingaröld,
eins og Ingi Sigurðsson hefur skýrt á sannfærandi hátt (Upplýsing og
saga, 9-50 og Upplýsingin á íslandi, 244-268). Á sama hátt gerir Hjalti
Hugason ágæta grein fyrir flóknu sambandi trúar og upplýsingar á ís-
landi (Upplýsingin á Islandi, 119-148), þó svo ég eigi enn nokkuð erfitt
með að sætta mig við að spyrt sé saman þýskri, danskri og íslenskri trú-
arsannfæringu og efahyggju franskrar upplýsingar. Varla leikur neinn
vafi á heldur að stofnun íslenskra vísindafélaga og útbreiddur áhugi á
meðal mennta- og embættismanna á Islandi á ýmiss konar fræðastarf-
semi á síðari hluta 18. aldar og við upphaf hinnar 19. tengdist svipaðri
iðju á meðal upplýsingarmanna í kjarnalöndum Evrópu. En þegar við
förum út fyrir ramma hugmyndanna er aftur á móti oft erfiðara að henda
reiður á áhrifum upplýsingarinnar á íslenska umræðu og athafnir.
Greinilegt er t.d. að einstaklingshyggjan átti sér fáa formælendur á ís-
landi lengst af, eða a.m.k. þar til langt var komið fram á síðustu öld. Eins
er mér ekki ljóst hvort atvinnustefna íslenskra framámanna á 18. öld var
eitthvað sérlega „upplýst" - enda er frekar erfitt að skilgreina hvernig
upplýsingarmenn skáru sig úr í þeim efnum. Áhersla á landbúnað er t.d.
ekkert séreinkenni upplýsingar eða búauðgisstefnu, þar sem höfundar
um atvinnumál allt frá dögum biblíunnar til Frangois Quesnays voru
sammála um að ræktun jarðarinnar hlyti að verða grundvöllur auðssöfn-
unar í mannlegu samfélagi. Tengsl Innréttinganna í Reykjavík við upp-
lýsinguna eru líka í besta falli óviss, enda finnast mér þær fremur bera
keim af tilraunum kaupauðgismanna til að auka innlenda framleiðslu en
þeirri sannfæringu búauðgismanna að frjáls verslun myndi örva þá fram-
leiðslu sem skynsamlegast væri að stunda í hverju landi.
Það sem gerði íslenska upplýsingu þó ótvírætt að Upplýsingu, og
sem um leið tryggði áhrif stefnunnar langt útfyrir eiginlega upplýsingar-
öld, kom ekki fyrst og fremst fram í gerðum einstakra upplýsingar-
manna, heldur í viðhorfuni þeirra til félagslegrar þróunar. Ingi Sigurðs-