Skírnir - 01.04.1992, Síða 223
SKÍRNIR
í SVARTHOLI EÐA SVANSLÍKI
217
ingu og má þar nefna allar prósabækur Gyrðis Elíassonar, sagnasafnið
Mýrarenglarnir falla eftir Sigfús Bjartmarsson (1990), skáldsögurnar
Meðan nóttin líður eftir Fríðu Á. Sigurðardóttur (1990) og Spillvirkja
eftir Egil Egilsson (1991); og í skáldsögunni Völundarhúsinu eftir Baldur
Gunnarsson (1990) er sjálf „erkiandstæða" sveitarinnar, Reykjavík, sett í
sögulega náttúru-umgjörð.
íslensk sveita-náttúra getur að sönnu birst okkur sem klisja og hnoð,
einkum þegar hún er klaufalega notuð sem táknræn umgjörð fyrir per-
sónulegt eða rómantískt uppgjör; núorðið er þetta kannski einna helst
gildra fyrir kvikmyndagerðarmenn. En í mörgum bestu prósaverkum
undanfarinna ára eru náttúran og dreifbýlið ekki tilgerðarleg umgjörð
heldur lifandi bakland menningar.5
5
í skáldsögu Steinars Sigurjónssonar erum við hinsvegar á allt öðrum
slóðum. Það er ekki nóg með að sagan fjalli um líflausa umgjörð, í marg-
földum skilningi (hús, kjallara, kistu, líkama), heldur er sem höfundur
sæki skáldþrótt sinn í dauðahrollinn sjálfan. Sé svanurinn birtingarmynd
guðdómsins, þá er kjallarinn tákn heljar, og við vitum ekki hvort Davíð á
sér nokkra upprisuvon. Jónína á lokaorðin: „Sko. Nú er hann að sökkva.
Nú sekkur hann þángað þar sem alltaf er nótt.“ (110).
Andstætt sjónrænum heimi Svansins, sem bætir lesanda upp baklæg-
an söguþráð með heillandi myndskeiðum, má segja að myrkraveröld
Kjallarans gleypi lesandann og bjóði honum fátt til leiðsagnar annað en
kjallarann í öllum sínum „myndum“. „Kjallari“ er öflugt myndvarp sem
fellur um allt verkið. Þegar hefur verið minnst á kassalaga umgjörð
mannlífsins, en auk þess er kjallarinn tákn ýmiskonar undirheima - Dav-
íð er hugmyndalega skyldur söguhetju Dostojevskíjs í Minnispunktum
úr undirheimum (1864). Þannig má líka sjá tengsl milli kjallarans og
djúpsins í samnefndu verki Steinars. Kjallarinn getur vísað til undirvit-
undar, en einnig til líkamans (sem kjallara vitundarinnar eða ,,andans“).
Þetta svarthol rúmar jafnframt allt það sem hreinsað er burt af efri hæð-
um samfélagsins. Það er einskonar ruslakista þar sem fortíðardraugar og
„forfeður“ hrúgast upp, eins og sjá mátti í tilvitnun hér að framan, en þá
jafnframt allt það kvika sem bæla þarf og halda í skefjum.
5 Ég nota „bakland" í nokkuð víðtækri merkingu hér, í senn sögulegri og
landfræðilegri og jafnframt með hliðsjón af þeirri heimsmynd og staðarvitund
sem er í sífelldri mótun í menningunni. Mikilvægi þessa hugtaks varð mér
fyrst fyllilega ljóst þegar Sigfús Bjartmarsson notaði það í viðtali um bók sína
Mýrarenglarnir falla (Morgunblaðið 8. des. 1990).