Skírnir - 01.04.1992, Page 228
222
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
SKÍRNIR
Óneitanlega er forvitnilegt að karlhöfundur skuli gera níu ára telpu
að aðalpersónu í skáldsögu sem ekki getur talist til barnabókmennta.
Eða eru brögð í tafli? Árið 1982 birti Guðbergur barnabókina Tóta og
táin á pabba. í lok þeirrar sögu vaknar drengurinn Tóti og sagan virðist
hafa verið draumur hans en þar hafði hann verið telpan Tóta. Fantasía
sögunnar, sem snýst m.a. um fjölskylduna, líkamann og kynferði,
sprettur því af einskonar kynvíxlun. Skömmu áður hafði Guðbergur
blandað sér í femíníska bókmenntaumræðu með tímaritsgrein er nefnist
„Hafa kvennabókmenntir sérstöðu?“. Hann álítur „að mannsandinn og
þá listir og bókmenntir séu samkyns í sínu eðli“:
Víst er að höfundur sem skrifar, til að mynda skáldsögu sem fjallar
bæði um karla og konur, telpur og drengi, dvelur meðan hann semur
(skapar) verkið í eins konar samkynsástandi, enda verður hann að
gefa persónum sínum eitthvert brot af því sem blundar í honum bæði
af karli og konu, pilti og stúlku, þótt hann gefi í raun aðeins sjálfan
sig óskiptan, ef vel tekst til, en undir ýmsum nöfnum.11
Guðbergur er hér á svipuðum slóðum og enski rithöfundurinn og
femínistinn Virginia Woolf (1882-1941), sem taldi að sköpunarstarf yrði
frjóast þegar það ætti sér stað í samkynja eða tvíkynja deiglu, þar sem
höfundurinn leyfir kvenlegum og karlegum þáttum að takast á og leika
saman. í frægu riti, Sérherbergi, vísar hún í þessu sambandi til orða
Coleridges um tvíkynferði hins mikla hugar:
Þegar Coleridge sagði að mikill hugur væri tvíkynja, átti hann áreið-
anlega ekki við að það væri hugur sem hefði einhverja sérstaka sam-
úð með konum; hugur sem talaði máli þeirra eða legði sig fram um
að útskýra þær. Kannski er tvíkynja hugur óhæfari um að gera þenn-
an greinarmun en einkynja hugur. Kannski átti hann við að tvíkynja
hugur gæfi enduróm og væri gljúpur; að hann tæki á móti og sendi
frá sér tilfinningar hindrunarlaust; að hann væri skapandi frá náttúr-
unnar hendi, hvítglóandi og óskiptur.12
Woolf telur þó að ekki séu á hverju strái rithöfundar sem gefi andlegu
tvíkynferði sínu sköpunarfrelsi. Skáldverk séu velflest bæld af valdi ein-
kynsins. Ætla má að svipað gildi um sköpun þeirrar sjálfsveru sem birtist
11 Tímarit Máls og menningar, 3. hefti 1981, bls. 326.
12 Virginia Woolf, Sérherbergi, þýðandi Helga Kress, Svart á hvítu, Reykjavík
1983, bls. 137. „Tvíkynja" er þýðing á hugtakinu „androgynous“, sbr. A
Room of One’s Own (fyrst pr. 1929), Panther Books, London 1977, bls. 94.