Skírnir - 01.04.1992, Blaðsíða 233
SKÍRNIR
DOSTOJEVSKÍJ Á MEÐAL VOR
227
ar. Hann vakti fyrst athygli tuttugu og fimm ára gamall með stuttri sögu,
Fátækt fólk, sem birtist í helsta bókmenntatímariti þess tíma, Sovre-
menník. Á unga aldri aðhylltist hann róttækar skoðanir, var tekinn fast-
ur og dæmdur í tíu ára fangavist og útlegð. Árið 1859 fékk hann leyfi til
að flytjast til Pétursborgar og tók þá til við skriftir á ný. Skoðanir hans
höfðu þá breyst, hann var orðinn íhaldssamur og mjög trúaður. Á sjö-
unda og áttunda áratugnum samdi Dostojevskíj þær skáldsögur sem
hann er þekktastur fyrir: Glæp og refsingu 1866, Fávitann 1868, Djöflana
1871 og Karamazovbrteðurna 1880. Langvinnur lungnasjúkdómur dró
hann til dauða árið 1881.
1
Dostojevskíj var ekki hátt skrifaður hjá samtímamönnum sínum og stóð
alltaf í skugga aðalsmannanna Tolstojs og Túrgenevs. Það er ekki fyrr en
á þessari öld að hann fer að teljast jafnoki þeirra, bæði í austri og vestri,
og nú er hann talinn vera sá nítjándu aldar rithöfundur sem mest er les-
inn. Hann og Tolstoj eru gjarnan nefndir í sama mund, þótt ólíkir séu, á
meðan Túrgenev hefur verið veitt æ minni athygli.
Heima fyrir sætti hann síðar meir gagnrýni sovésku bókmennta-
stofnunarinnar. Fljótlega eftir byltingu heyrðust raddir sem gagnrýndu
hann allharðlega fyrir skoðanir hans og var honum helst legið á hálsi fyr-
ir þrennt: að hafa stutt einveldi tsarsins, grísk-kaþólsku kirkjuna og þá
fylkingu manna sem kölluðu sig slavófíla. Hann hefur þó alltaf átt sér
aðdáaendur heima fyrir og má þar nefna Leoníd Grossmann, sem var tal-
inn aðalsérfræðingur Sovétmanna um Dostojevskíj og Míkhaíl Bakhtín,
en kenningar hans um hina margrödduðu skáldsögu, sem eru útfærðar
með hliðsjón af sögum Dostojevskíjs,3 eru nú þekktar um allan heim.
Lenín var eitt sinn spurður hvaða álit hann hefði á verkum Dostojevskíjs
og er sagður hafa svarað: „Eg eyði ekki tíma mínum í að lesa svona vit-
leysu."4
Dostojevskíj hefur alltaf verið afar umdeildur höfundur, og skoðanir
manna á honum eru engin hálfvelgja. Hann er höfundur sem vekur upp
sterkar tilfinningar hjá lesendum sínum, a. m. k. við fyrstu kynni og
menn ýmist hrífast af honum eða vilja ekkert af honum vita. Sögur
Dostojevskíjs teljast venjulega til raunsæisbókmennta, en í raun eru þær
furðuleg blanda raunsæis og rómantíkur. Þær einkennast af miklum innri
3 Sjá Míkhaíl Bakhtín: Problems of Dostoevsky’s Poetics, Ann Arbor, Mich.
1973.
4 Ernest J. Simmons: Feodor Dostoevsky, New York 1969, bls. 3.