Skírnir - 01.04.1992, Blaðsíða 235
SKÍRNIR
DOSTOJEVSKÍJ Á MEÐAL VOR
229
kallaði Dostojevskíj mannfræðing og átti með því við að hann stundaði
rannsóknir á mannlegu eðli og hvernig það breyttist við mismunandi að-
stæður.7 Síðar var farið að útskýra vinsældir Dostojevskíjs með því að
vísa til efnisins, sem þótti magnað og spennandi.
Spænski rithöfundurinn José Ortega y Gasset hélt því hins vegar
fram að ekki væri hægt að útskýra vinsældir hans á þennan hátt. Hann
taldi að efniviðurinn væri aðeins hluti af því sem við upplifðum við lest-
ur á skáldsögum Dostojevskíjs. „Söguefnið getur aldrei bjargað lista-
verki, gullið sem stytta er gerð úr gerir hana ekki heilaga. Listaverk lifir
vegna formsins, ekki efnisins [...]. Það má vera að maðurinn Dostojevskíj
hafi verið flogaveikur, eða ef til vill spámaður, en skáldsagnahöfundur-
inn Dostojevskíj var homme de lettres, samviskusamur og frábær lista-
maður og annað ekki.“8 Þessi skoðun hefur fengið byr undir báða vængi
eftir að vinnubækur hans voru gefnar út, en í þeim er að finna hugmynd-
ir Dostojevskíjs um skáldsögurnar og lýsa þær vel hvernig hann vann úr
þeim smám saman.
Velski rithöfundurinn John Cowper Powys líkti honum við Hómer
og Shakespeare og taldi hann gnæfa yfir alla aðra skáldsagnahöfunda,
„því hann er þeirra fremstur hvað varðar allar grunnhugmyndir skáld-
verksins. Hann er meiri listamaður, meiri sálfræðingur, meiri spámaður
og meiri hugsuður.“9 Powys áleit að list Dostojevskíjs fælist í hæfileika
hans til að miðla veruleika, þ.e. veruleika þess heims sem hann skapar í
verkum sínum og að sá heimur endurspeglaði á raunsannan hátt og betur
en aðrar skáldsögur þess tíma hinn raunverulega heim sem við búum í.
Frægastur í hópi þeirra sem telja hann ekki sérlega merkilegan höf-
und er eflaust Vladímír Nabokov, amerískur rithöfundur af rússneskum
ættum, sem fór ekki dult með skoðun sína á Dostojevskíj. Nabokov
skrifaði mikið um rússneskar bókmenntir, einnig um þýðingar, og hélt
fram mjög ákveðnum skoðunum í því sambandi. Hann þýddi talsvert
sjálfur, eigin verk (af ensku yfir á rússnesku og öfugt) og verk annarra
Rússa. Hann gerði kröfu um mikla nákvæmni bæði hvað varðar skilning
lesandans á bókmenntaverkum og þýðingar þeirra. Hann taldi nauðsyn-
legt að lesandinn gæti séð umhverfið sem sagan gerðist í með sömu aug-
um og rithöfundurinn. Um Tolstoj, sem hann dáði jafnmikið og hann
var andsnúinn Dostojevskíj, sagði hann: „[. . .] það eru smáatriðin, sem
gefa af sér þann tilfinningaþrungna neista, sem einmitt gæða bókina lífi.
7 Nicholas Berdyaev: „Dostoyevsky, the Nature of Man, and Evil“, í Crime
and Pnnishment (Norton Critical Edition), New York 1975, bls. 571.
8 „Dostoevski and Proust“ í José Ortega y Gasset: The Dehumanization of Art
and Other Essays on Art, Culture and Literature, Princeton 1968, bls. 74-75.
9 John Cowper Powys: Enjoyment of Literature, New York 1938, bls. 365.