Skírnir - 01.04.1992, Síða 239
SKÍRNIR
DOSTOJEVSKÍJ Á MEÐAL VOR
233
verkum sem hann þýðir. Haft er eftir Nikolaj Gogol að þýðing eigi að
vera eins og gler, sem menn horfa í gegnum, en sjá ekki. Þarna er líklega
komin uppskriftin að hinni fullkomnu þýðingu en fæstir myndu vilja
halda því fram að slík þýðing sé möguleg, aðallega vegna þess hve
menningarbundin tungumál eru. Oft er fróðlegt að lesa lýsingar þýðenda
á vandamálum sem þeir hafa orðið að kljást við og hvernig þeir hafa leyst
úr þeim. Sigfús Bjartmarsson bendir réttilega á að óhjákvæmilega fari
margt forgörðum í þýðingum, og þeim mun meira því betri sem höfund-
ur er, en að það megi bæta höfundinum tjónið að einhverju leyti með því
að „nýta sér svo lítið beri á þá möguleika sem gefast", og á þar líklega við
að þýðandanum sé leyfilegt að spila á aðra strengi í stað þeirra sem tapast
svo að verkið verði ekki síðra í þýðingu þegar á heildina er litið.18 Án
þess að fara nánar út í það hér má í stuttu máli segja að aðalkröfurnar séu
tvær. I fyrsta lagi á þýðandi að sýna frumtextanum og boðskap hans eins
mikla trúmennsku og unnt er og í öðru lagi þarf hann að geta skrifað
gott og eðlilegt mál.
4
Ingibjörg Haraldsdóttir markar viss tímamót með þýðingum sínum.
Kjartan Ólafsson var fyrstur til að þýða rússnesk skáldverk á íslensku
beint úr frummálinu, og Ingibjörg tekur upp þráðinn rúmum þrjátíu
árum síðar. í grein um þýðingar, sem Ástráður Eysteinsson skrifaði
1984, talar hann um strjála og samhengislausa útgáfu skáldsagnaþýð-
inga.19 Þetta má segja að eigi við um þýðingar rússneskra skáldsagna.
Þýðendurnir eru margir og flestir þýða einungis eitt verk eða tvö. Fjöldi
þýddra verka er talsverður, en tilviljanakennt hvað hefur verið þýtt. Valið
hefur gjarnan verið háð bæði pólitískum sveiflum í þjóðfélaginu og að
sjálfsögðu áhuga þýðandans og útgefandans.20 Ef litið er yfir íslenska
þýðingasögu rússneskra bókmennta á þessari öld sést að hún hefst ekki
að neinu verulegu marki fyrr en á fjórða áratugnum.21 Þá komu út fimm
bækur, þ.á.m. tvær eftir Maxim Gorkíj og skáldsaga Dostojevskíjs Glœp-
ur og refsing. Næstu þrjá áratugi komu út tæplega fjörutíu verk, en á átt-
18 Sigfús Bjartmarsson: „Nokkur orð um þýðinguna", í Jorge Luis Borges:
Blekspegillinn, Reykjavík 1990, bls. 117.
19 Ástráður Eysteinsson: „Bókmenntir og þýðingar", Skírnir 1984, bls. 21.
20 Reyndar eru þessar ástæður báðar fyrir hendi enn í dag, en við hefur bæst í
auknum mæli markaðsstefna forlaganna, sem felst helst í því að gefa út bækur
metsöluhöfunda, sem líklegar eru til að seljast vel.
21 Ég hef aðeins fundið eitt rússneskt skáldverk, sem kom út fyrir aldamótin, en
það eru Sögur frá Síberíu eftir Vladímír Korolenko. Sjá skrá yfir rússneskar
bókmenntir í íslenskri þýðingu 1897-1991 sem fylgir greininni.