Skírnir - 01.04.1992, Page 241
SKÍRNIR
DOSTOJEVSKÍJ Á MEÐAL VOR
235
legið í gleymsku í rúma hálfa öld á meðan allmörg verk eftir Tolstoj og
Gorkíj og svo ýmsa minni háttar höfunda voru þýdd. Ef til vill er skýr-
ingin sú að Dostojevskíj hefur oft þótt með erfiðari höfundum. Hann
hefur verið mönnum meiri ráðgáta en flestir aðrir nítjándu aldar höfund-
ar sem njóta almennrar hylli, og það er ekki fyrr en Ingibjörg tekur að
þýða verk hans á níunda áratugnum að hann hlýtur loks verðskuldaða
athygli hérlendis.
5
Rússneska er indóevrópskt mál eins og íslenska, en tilheyrir slavnesku
grein málaflokksins. Skyldleiki málanna kemur víða fram: rússneska og
íslenska hafa skyld orð yfir marga hluti, t.a.m. moloko - mjólk, mat -
móðir, brat - bróðir, voda - vatn. Rússar fallbeygja eins og við, en hafa
reyndar fleiri föll og svo mætti áfram telja. Margt er þó að sjálfsögðu afar
ólíkt í byggingu málanna og getur valdið erfiðleikum þegar reynt er að
þýða úr einu málinu yfir á annað. Til dæmis mætti nefna svo einfaldan
hlut sem það að sögnin að vera er yfirleitt ekki notuð í nútíð í rússnesku.
Rétt er að athuga nokkur atriði sem geta valdið vandræðum þegar
þýtt er úr rússnesku á íslensku.
Þéringar eru eitt af því sem þarf að gefa sérstakan gaum þegar þýtt er
á íslensku úr erlendum málum. Nú eru íslendingar svo til hættir að þér-
ast og notkun þéringa í óhófi getur virkað hálfankannalega. Margir þýð-
endur velja þó að halda erlendum þéringum í þýðingum sínum, annað
hvort í því skyni að ná málfari fyrri tíma eða til að minna á að sagan ger-
ist í allt öðru umhverfi. Oft er þó eins og þéringar flækist fyrir og geri
samtöl óeðlileg. I skáldsögum Dostojevskíjs er afar mikið af samtölum.
Stundum er heitt í kolunum og samtöl ástríðuþrungin, eins og í eftirfar-
andi kafla úr Karamazovbraðmnum, þegar elsti bróðirinn Dmítríj kem-
ur allur ataður blóði (sem verður m.a. til þess að hann er síðar ákærður
fyrir morðið á föður sínum) til embættismannsins Perkhotín til að end-
urheimta byssur sínar:
- En hvað er að yður? Hvað hefur komið fyrir yður? æpti Pjotr Iljít-
sj enn og virti gestinn fyrir sér trylltum augum. Hvernig fóruð þér að
því að ata yður allan í blóði, duttuð þér eða hvað? Sjáið bara!
-[...] Fjandinn sjálfur! Eigið þér ekki einhverja tusku . . . til að
þurrka þetta af mér ...
- Eruð þér bara útataður, ekkert særður? Þér ættuð að þvo yður,
svaraði Pjotr Iljítsj. (Karamazovbræðurnir II, bls. 87-88)
Kannski er það inntakið í samtalinu sem er í ósamræmi við formið.
Setningarnar missa slagkraftinn við þéringarnar, og það virðist eitthvað