Skírnir - 01.04.1992, Síða 249
SKÍRNIR
DOSTOJEVSKÍJ Á MEÐAL VOR
243
þýða sígild bókmenntaverk, sérstaklega verk sem eru orðin meir en ald-
argömul, hefði óneitanlega verið fróðlegt fyrir lesendur ef einhver sam-
antekt um skáldsöguna, höfund hennar og útgáfuna hefði fylgt í formála
eða eftirmála. Það heyrir því miður til undantekninga að þannig sé
staðið að útgáfum hérlendis,29 en þær eru mun algengari erlendis þar sem
vönduð þýðing er varla gefin út nema formáli fylgi. Væri ekki úr vegi að
við gerðum það einnig að reglu hérlendis að skrifa ítarlegar um bók-
menntaverk sem þýdd eru og höfunda þeirra. Það má benda á eitt nýlegt
dæmi um slíka útgáfu hérlendis. Það er ljóðabók Federico García Lorca,
Skáld í New York, sem kom út á síðasta ári.30 Þýðandinn, Jón Hallur
Stefánsson, lætur fylgja mjög vandaðan eftirmála sem hann nefnir „Upp-
lýsingar og athugasemdir", þar sem hann segir í stuttu máli frá höfundin-
um, verkinu og útgáfunni, auk þess sem hann birtir upplýsingar um ljóð-
in og annan texta í bókinni. Þessi bókarauki eykur að mínum dómi gildi
útgáfunnar talsvert og er til fyrirmyndar.
I annan stað hefði mér þótt rétt að fáeinar skýringar fylgdu skáldsög-
unum, því það eru mörg atriði í skáldsögum Dostojevskíjs, sem nútíma
lesendur geta ekki með nokkru móti áttað sig á og þarfnast skýringa við.
I kafla sem vitnað var í hér á undan var talað um það að Sonja, dóttir
Marmeladovs, væri komin með „gula passann". Þó að suma glögga les-
endur kunni að gruna hvað umræddur passi tákni, þá hlýtur það að valda
nokkurri óvissu hjá flestum. Þegar svona atriði koma fyrir í skáldsögu er
hugsanlega hægt að umorða hugtakið þannig að það sé skiljanlegt öllum,
eða að skýra það annað hvort í neðanmálsgrein, eða aftast. I þýðingum
Magarshacks og Coulsons er þýtt á eftirfarandi hátt:
„When my daughter went on the streets for the first time, I had to go
too, for my daughter," he added parenthetically [. . .] „is a certified
woman of the streets.“ (David Magarshack, bls. 31)
„The first time my only daughter went on the streets I too went
. (for my daughter is a street-walker, sir),“ he added parenthetically.
(Jessie Coulson, bls. 11)
Nokkru síðar er minnst á gula passann aftur og útskýrir þá Coulson
fyrir lesendum sínum í neðanmálsgrein hvað slíkur passi tákni:
29 Sem dæmi má þó nefna eftirmála við þýðingu Guðbergs Bergssonar á skáld-
sögu Juan Benet: Andrúmsloft glœps, Reykjavík 1988, þýðingu Gísla Ás-
mundssonar á Raunum Werthers unga eftir Goethe, Reykjavík 1987, og þýð-
ingu Kristjáns Eldjárns á Norðurlandstrómet eftir Peter Dass, Reykjavík 1977.
30 García Lorca, Federico: Skáld íNew York, Reykjavík 1991.