Skírnir - 01.04.1992, Blaðsíða 255
FREGNIR AF BÓKUM
Spor í bókmentitafræði 20. aldar. Frá Shklovskíj til Foucault. Ritstjórn:
Garðar Baldvinsson, Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir; formáli
eftir Garðar Baldvinsson. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Islands,
Fræðirit 7, Reykjavík 1991.
Eins og flest önnur svið mannlegrar þekkingar hefur bókmenntafræðin
tekið miklum stakkaskiptum á þessari öld. Til einföldunar má segja að
við upphaf aldarinnar hafi hin svokallaða ævisöguaðferð einkum verið
við lýði; skáldverkið var kannað fyrst og fremst sem afurð ákveðins
höfundar og reynt að varpa Ijósi á það og skýra með hliðsjón af þeirri
vitneskju sem hægt er að afla um ævi og baksvið höfundarins. Þær breyt-
ingar sem átt hafa sér stað á þessari öld hafa einkum falist í því að bók-
menntafræðingar hafa lagt meiri áherslu á að skoða innviði verksins,
hvernig það er samansett og hvernig úrvinnsla og sköpun merkingar á
sér stað í því. Þetta hefur haldist í hendur við aðrar breytingar á hugsun
manna um eðli tungumálsins og samband mannsins við það.
Þótt þessarar byltingar hafi orðið vart á ýmsan hátt í íslenskum bók-
menntarannsóknum undanfarinna ára og fundið sér leið inn í rit og
greinar um bókmenntir og bókmenntafræði, þá hafa þeir sem hafa viljað
kynna sér af eigin raun verk þeirra fræðimanna sem að henni hafa staðið
ekki átt annarra úrkosta en að lesa þau á erlendum málum. Nú hefur
Bókmenntafræðistofnun ráðist í að gefa út íslenskar þýðingar á tíu
ritgerðum, en hver þeirra er framlag til þróunar þeirrar sem hér um
ræðir. Ekki er annað hægt en að fagna þessu framtaki, því nú geta
íslenskir lesendur, ekki aðeins þeir sem fást við bókmenntir, heldur allir
sem leggja stund á mannleg fræði, kynnt sér þessar hugmyndir af eigin
raun, án þess að þurfa að brjótast í gegnum texta á erlendu tungumáli.
Gildi verksins felst þó umfram allt í því að þar sem síður en svo er um
einfalda hugsun að ræða, og oft á tíðum ansi nýstárlega, þá verður hún í
senn aðgengilegri við að vera færð í íslenskan búning og líklegri til að
hafa áhrif á þá sem hugsa um bókmenntir á íslensku. Utgefendur,
þýðendur og aðrir aðstandendur eiga þakkir skilið fyrir framtakið og
fyrir þá miklu vinnu sem býr að baki þessaru útgáfu.
Ritgerðirnar tíu eru frá ýmsum skeiðum aldarinnar. Elst er ritgerð
rússans Viktors Shklovskíjs frá 1917 en yngst innsetningarræða Frakkans
Michel Foucault þegar hann tók við prófessorsstöðu í Collége de France,
æðstu menntastofnun Frakklands, árið 1970. Ritgerð Shklovskíjs fjallar
um list sem tækni og leggur áherslu á formþætti listaverksins, þar á
meðal bókmenntaverksins. I ræðu sinni leitast Foucault við að sýna
hvernig sú valdbeiting sem býr að baki hverri þjóðfélagsskipan mótar
einnig orðræðuna í samfélaginu. Sýnist undirrituðum að bilið milli þess-
ara tveggja ritsmíða sanni að á þessu skeiði hafi átt sér stað þróun sem
sýnir að þótt bókmenntafræðingar hafi hætt að líta fyrst og fremst á höf-
undinn og einkum viljað skoða innviði bókmenntaverksins, hafi þeir
Skírnir, 166. ár (vor 1992)