Skagfirðingabók - 01.01.1988, Page 179
„FRÍ VIÐ SLÓRIÐ FINNBOGI“
bjuggu þau á Sjöundastöðum í Flókadal. Marteinn fórst í
snjófóði á Siglufjarðarleið veturinn 1912. Sigurður og Sigur-
björg fluttust frá Fírúthúsum til Hjalteyrar við Eyjafjörð og
áttu þar heimili upp frá því. Sigurður var greindur vel og
glaðsinna, létt um að mæla í bundnu máli. Mun þó fátt eitt
varðveitt af kveðskap hans að sögn sona hans, sem ég
kynntist síðar á Akureyri.
Ekki er mér kunnugt, hvort Bogi var búinn að selja búð
og bát áður en hann dó, 1924, eða sala fór fram eftir lát
hans, en Jón Guðbrandsson í Saurbæ eignaðist hvort
tveggja. Eitthvað fór Jón á sjó fyrstu árin, en lítið eftir að
hann hóf búskap í Saurbæ 1928. Eg tel því Boga með nokkr-
um rétti vera síðasta útvegsbónda í Hraunakróki. Búðin
stóð uppi fram um 1940, var þá komin að falli og rifin, en
viðir fluttir heim í Saurbæ. Búfótur var þó sjófær nokkur ár
enn og lá í hrófi við Sökkukeldu þar sem hún kemur í
Fljótaá niður undan Minnaholti. Var honum þá róið til
fiskjar niður Fljótaá og Miklavatn út í gegnum ósinn, sem
var þá jafnan skipgengur á sumrin. Fyrir virkjun Skeiðsfoss
hreinsaðist ósinn jafnan í vorflóðum, þótt vetrarbrimin
vildu bera upp í hann eða jafnvel loka alveg.
Frá þessum fáu vordögum á sjó með Boga á ég hinar
beztu minningar. Þó var ég ekki laus við sjóveiki og
sjóhræðslu, en það bætti Bogi upp með þolinmæði og ljúfri
famkomu. Stundum var líka gaman að damla í logninu,
renna færi og draga þorsk að borði. Hitt gerði ég mér ljóst,
að sjómennska hentaði mér ekki sem framtíðarstarf. Til þess
vantaði mig áhuga. Mér myndi hollara að hafa fast land
undir fótum en stíga öldurnar í misjöfnum veðrum.
Fyrir nokkrum árum fórum við Jón í Saurbæ niður í
Hraunakrók og gengum þar milli gamalla búðarústa. Við
komum í Bogabúð og settumst niður stundarkorn. Þá runnu
mér fyrir hugskotssjónir minningar um þessa vordaga með
Boga, og varð það til þess, að ég festi þær síðar á blað.
177