Tölvumál - 01.11.2015, Blaðsíða 27

Tölvumál - 01.11.2015, Blaðsíða 27
27 ÞRÓUN Í FORRITUNARKENNSLU Hallgrímur Arnalds, lektor við Háskólann í Reykjavík og umsjónarmaður BSc náms í tölvunarfræði Viðtalið tók Dr. Ásrún Matthíasdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík Hallgrímur er einn af þeim sem hefur kennt forritun lengi, bæði á framhalds- og háskólastigi. Það er því áhugavert að heyra hvernig honum finnst námið og námsefnið hafa breyst á undaförnum árum. Hann telur að framboð á námsefni hafi breyst mikið þar sem áður var ekki um margt að velja og oft var kennslubókin eina kennsluefnið sem var notað ásamt verkefnum frá kennurum. „Nú fylgir yfirleitt heilmikið ítarefni með kennslubókum svo sem glærur, forritunarverkefni og lausnir, dæmi um próf, ítarefni á vef með krossaprófum og fleira. Fyrir utan það geta bæði kennarar og nemendur fundið alls konar efni á vefnum m.a. heilu námskeiðin um ákveðið efni, upptökur með verkefnum og leiðbeiningum o.s.frv. En í grunninn finnst mér kennslubækurnar vera svipaðar og áður, en það er ítarefnið sem fylgir kennslubókum sem er sífellt að aukast“. EN NEMENDUR, HAFA ÞEIR BREYST? „Já áhugi á forritun hefur aukist mikið almennt í þjóðfélaginu sem auðvitað hefur áhrif á áhuga nemenda á faginu. Hinn „venjulegi nemandi“ hefur núna áhuga á forritun og vill kynna sér forritun en áhuginn var áður bundinn við afmarkaðri hópa. Einnig hefur sjálfstæði nemanda aukist með auðveldari aðgengi að leiðbeiningum og kennsluefni.“ Hann telur að áður þegar nemendahópurinn var fámennari þá hafi meirihluti nemenda þeirra verið tölvugrúskarar, „nördar“, en núna er samsetningin fjölbreyttari og sumir nemendur hafa jafnvel litla sem enga þekkingu á forritun þegar þeir mæta í háskólanám í tölvunarfræði. Það er áhuginn á nýju og skapandi námi sem dregur þá að ásamt von um góða atvinnumöguleika og framhaldsnám hérlendis og ekki síður erlendis. HVAÐ MEÐ KENNSLUAÐFERÐIRNAR, HAFA ÞÆR BREYST? Hallgrímur telur að þær hafi breyst með aukinni tækni í kennslu. „Notkun á fyrirfram uppteknu efni verður sífellt vinsælla og próf sem nemendur geta tekið á vefnum. Sjálfvirk yfirferð verkefna þannig að nemendur fá endurgjöf á lausnir sínar strax eru dæmi um slíkar breytingar.“ Þetta rafræna umhverfi er mikill stuðningur við nemendur, þeir geta sótt sér aðstoð utan kennslutíma, æft sig á rafrænum prófum, leitað að upptökum tengdum því verkefni sem unnið er með hverju sinni. Þetta er allt annar veruleiki en fyrir ca. 20 árum. AÐ LOKUM, HVERNIG SÉRÐU FYRIR ÞÉR KENNSLU Í FORRITUN Í FRAMTÍÐINNI? „Þar sem framboð á kennsluefni og fjölbreytni á kennsluefni eykst stöðugt þá bjóðast nemendum sífellt fleiri leiðir til að tileinka sér efnið. Þó að flestir læri forritun með því að forrita og leysa verkefni þá tel ég það vera mjög mismunandi hvaða leiðir henta hverjum og einum nemanda að ná því markmiði. Einum getur t.d. þótt best að læra forritun með því að horfa á upptöku þar sem kennari fer yfir hvernig hann leysir verkefni á meðan öðrum hentar betur að tileinka sér efnið með því að lesa kennslubókina o.s.frv“. Hann telur það vera hlutverk menntakerfisins að bjóða upp á mismunandi leiðir í námi en hver og einn nemandi velur síðan þá leið sem honum hentar best. Lokaorð Hallgríms verða: „Tölvunarfræði er bæði skemmtilegt og krefjandi nám og það er gaman að upplifa sífellt aukin áhuga á greininni.“ NÝSKÖPUN ER LÆRDÓMSRÍK Starfsfólk TripCreator fylgist grannt með í ferðaiðnaðinum – bæði með samstarfsaðilum og keppinautunum. „Þetta er lifandi umhverfi og breytingarnar eru örar. Við hjá TripCreator þurftum að byrja á byrjunarreit því þetta er vara sem er ekki til annars staðar í heiminum.“ Nú starfa 10 manns hjá fyrirtækinu. „Að vinna í nýsköpunarfyrirtæki er lærdómsferli, við leggjum kannski upp með eitthvað gera eitthvað ákveðið en svo kemur í ljós að notandinn þarf eitthvað allt annað. Það er líka mikil rannsóknarvinna á bak við verkefnin og maður verður að rökstyðja hver markmiðin eru með hverri hugmynd. Á sama tíma er mikill fram- kvæmda vilji í fyrirtækinu og starfsfólkið opið fyrir hugmyndum.“ TripCreator stefnir nú að því að bæta vefinn enn frekar með tilliti til umsagna viðskiptavina ásamt því að fjölga áfangastöðum svo hægt sé að nýta tólið til að skipuleggja ferðir til fleiri landa. „Það er þó algjört leyndarmál,“ segir Lella að lokum.

x

Tölvumál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tölvumál
https://timarit.is/publication/239

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.